Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 8
7
RúSSNESKA BYLTINGIN FYRR OG SÍðAR
Petrograd á stjórnlagaþinginu sem kosið er í lok nóvember og á að taka
til starfa í desember.6 En loks þegar að því kemur í janúar hafa Lenín og
hans nánustu samstarfsmenn fengið nóg af því að vera bara einn flokkur
af mörgum. Þeir leysa upp stjórnlagaþingið. Hér eftir er ljóst að fulltrúar
annarra flokka verða fyrst og fremst að lúta þeim.7
Á næstu tíu árum mótast sú frásögn af atburðum byltingarinnar sem
sigurvegararnir vilja festa í sessi. Í stað tilviljanakenndrar óreiðunnar í
stríðshrjáðu landi, er byltingin valdataka verkamanna, hermanna og bænda
og leiðtogar hennar framvarðasveitin sem leiðir verkalýðinn til sigurs.
Kvikmynd Sergejs Eisenstein, Október, sem gerð er í tilefni af tíu ára afmæli
byltingarinnar brúar bilið á milli minningar og veruleika. Atburðir öðlast
táknræna merkingu, þeim er raðað upp á nýtt eða sviðsettir. Frásögn banda-
ríska blaðamannsins Johns Reed sem fylgdist með atburðum í Petrograd
allt haustið 1917 og var í góðum tengslum við bolsévíka gaf lýsingu þeirra
þá snerpu og spennu sem þótti hæfa. Bók hans Tíu dagar sem skóku heim-
inn, með formála Leníns, var eitt af grundvallarritum byltingarinnar og
jafnvel þótt Stalín mislíkaði hvað hún fjallaði mikið um Trotskí og lítið um
sig, var titill hennar notaður á alþjóðlega útgáfu kvikmyndar Eisensteins
sem vakti heimsathygli árið 1928 – sama árið og Óskarsverðlaunin eru
veitt í fyrsta sinn og sama árið og 6. þing Alþjóðasambands kommúnista
lýsir því yfir að sósíaldemókratar séu höfuðstoð borgarastéttarinnar og
réttnefndir sósíalfasistar. Kommúnistar muni berjast gegn þeim af hörku
og hafa fullan sigur – það sé óhjákvæmilegt. Kapítalisminn og afskræming
mannlífsins í skemmtanaiðnaðinum heyri brátt sögunni til. Heimurinn er
í skautun – öfgar á báða bóga nærast á kreppu og óvissu. Í Sovétríkjunum
heldur Stalín byltingunni áfram með þvinguðum umskiptum í landbúnaði
og iðnaði, milljónir falla í hungursneyðum og hreinsunum en uppúr þessu
verður Rússland stórveldi á ný.8
Frásögnin af byltingunni, fínpússuð eftir þeim hugmyndafræðilegu og
sögulegu kröfum sem flokkseinræði Sovétríkjanna krefst er helgisögn, og
um nokkurra áratuga skeið hin viðurkennda birtingarmynd sigurs verka-
6 „Bolsheviki carry six Petrograd seats in the assembly“ The New York Times, 1.
desember 1917, bls. 1.
7 „Congress of Soviets to replace assembly“ The New York Times, 22. janúar 1918,
bls. 5.
8 Sergej Eisenstein, Oktjabr, frumsýnd 1927; Oktober: Ten Days that Shook the World,
frumsýnd 1928; John Reed, Tíu dagar sem skóku heiminn, ísl. þýð. Þorvaldur Þor-
valds son (Reykjavík: Skrudda, 2017).