Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 157
156
Textaheimar
Kenningin um textaheima er nátengd kenningunni um hugsanlega heima.
Þeir sem kjósa að fást við þá fyrrnefndu nefna þó meðal annars að þar sem
kenningin um þá hugsanlegu eigi sér rætur í rökfræði, vanræki hún að lýsa
þeim vitsmunalegu ferlum sem eiga hlut að máli þegar slíkir heimar rísa
í höfðum lesenda.36 Talsmenn textaheima reyna enda ekki síst að leggja
niður fyrir sér reynslu lesenda af heimum frásagna. Þeir sækja meðal ann-
ars til hugrænnar málfræði og sálfræði, sýna hvernig ákveðin hugarferli
valda því að í kolli lesenda rís birtingarmynd tiltekins heims en leitast
einnig við að fjalla um hvernig samhengi textans hefur áhrif á gerð hans
og viðtökur.37
Kenninguna um textaheima má rekja til Pauls Werth en hann ræddi
fyrst um þá í tengslum við metafórur.38 Werth skiptir orðræðu (e. dis-
course) – jafnt skáldaðri sem annarri – á þrjú hugtakssvið. Hann gerir ráð
fyrir sérstökum orðræðuheimi (e. discourse world) sem tekur til samhengis
„sjálfrar málathafnarinnar“ (e. speech event).39 Orðræðuheimurinn spannar
þátttakendurna í orðræðunni, svo og staðinn og tímann sem hún fer fram
á en tekur t.d. líka mið af þeirri reynslu og þekkingu sem þátttakendurn-
ir byggja á þegar þeir leggja sinn skilning í það sem þeir lesa eða heyra.
Orðræðuheimurinn samsvarar raunheiminum en boðskiptin í honum
verða til þess að menn búa til svokallaða textaheima. Slíkir heimar eru hug-
smíð sem fólk notar til að safna saman upplýsingum úr textanum, túlka
þær og auka við af eigin þekkingu. Textaheimarnir eru gerðir úr mótunar-
einingum heima (e. world-building elements) sem hefur verið lýst sem bak-
36 Sjá Elena Semino, Language and World Creation in Poems and Other Texts, bls. 83.
Semino hefur t.d. líka nefnt að hugsanlegir heimar þurfi ekki að brjóta nein abstrakt
lögmál um „hugsanleika“ til að lesanda finnist þeir illhugsanlegir eða ósennilegir;
þeir geti einfaldlega brotið í berhögg við það sem hann hafi átt von á, afstöðu hans
og hugmyndir sem eigi sér rætur í bjástri hans í veruleikanum, sjá „Schema theory
and the analysis of text worlds in poetry“, bls. 81.
37 Sjá t.d. Joanna Gavins, Text World Theory: An Introduction, Edinborg: Edinburgh
University Press, 2007, bls. 8.
38 Paul Werth, „Extended metaphor – a text-world account“, Language and Litera-
ture 2/1994, bls. 79–103. – Orðræðu má skilgreina sem „táknfræðilega athöfn sem
setur merkingu niður í tíma og rúmi“, sbr. Jørgen Dines Johansen og Svend Erik
Larsen, Tegn i brug, København: Amanda, 1994, bls. 280.
39 Paul Werth, Text Worlds: Representing Conceptual Space in Discourse. Harlow og New
York: Pearson Education Limited, 1999, bls. 83. Þessi bók var gefin út að Werth
látnum og spannar helstu skrif hans um textaheima.
beRglJÓt soffía KRistJÁnsdÓttiR