Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 152
151
arlegt að tala um umdæmi og sérstaklinga, geta þeir einfaldlega nýtt í stað
þeirra hversdagslegri orð eins og almenn niðurskipan (e. setting), hluti og
persónur. En gott er þá að minnast hins sérstaka sambands lesanda og
heims skáldskapar sem veldur því t.d. að persónurnar orka einatt ekki bara
sem orð á blaði, heldur sem menn eða að minnsta kosti mannlíki.
Sumir telja að raunheimurinn sé eini heimurinn sem skiptir máli (e.
actual), þ.e.a.s. sé virkur eða ríkjandi.25 Hann sé sá eini sem eigi sér sjálf-
stæða tilvist og sé raunverulegur í eðlisfræðilegum skilningi. Aðrir gera
ráð fyrir að allir hugsanlegir heimar séu jafnraunverulegir – t.d. ímyndanir,
dagdraumar og skáldaðar frásagnir – en þeir séu virkir eða ekki í augum
ólíkra aðila.26 Þá er heimur raunveruleikans til að mynda ekki endilega virk-
ur í augum persóna í skáldsögum heldur sá heimur sem þær hrærast í. Einnig
hefur verið bent á að nokkru skipti þegar hugað er að skálduðum frásögn-
um að menn greini á milli hins virka heims persónanna og sýndarheima
(e. virtual worlds) þeirra, nánar tiltekið einkaheima (e. private worlds) þeirra
hverrar fyrir sig. Slíkir heimar einkennast af þrám persónanna, draumum,
markmiðum og ætlunum sem kunna að stangast á við virka heiminn sem
þær eru hluti af, þannig að það valdi árekstrum við hann. Í Gerplu þráir
skáldið Þormóður Bersason t.d. að þjóna konungi. Hann gerir sér háleitar
hugmyndir um slíka þjónustu og er lengst af tilbúinn að fórna öllu fyrir
hana. En þegar hann sér og hittir konung við lok sögu, áttar hann sig um
síðir á þeirri blekkingu sem hann hefur lifað í.
Í samræmi við það sem hefur komið fram má lýsa skálduðum frásagn-
arbókmenntum svo:
Þær eru bundnar máli, segja frá hugsanlegum, skálduðum heimum
og eru hugsmíð. Aðgengi er milli tveggja hugsanlegra heima
25 Í hópi þeirra eru t.d. Alvin Platinga, sbr. „Actualism and Possible Worlds“, bls. 139,
Umberto Eco, sjá t.d. The Role of the Reader: Explorations in the Semiotics of Texts,
Bloomington: Indiana University Press, 1994, bls. 219 og Thomas G. Pavel, sbr.
Fictional Worlds, Cambridge Ma. og London: Harvard University Press, 1986, bls.
64, t.d.
26 Sjá David Lewis, Counterfactuals, Malden og Oxford 2001 [1973]: Blackwell, bls.
84–86, t.d. Hér snýst málið um bendivísun (e. deixis) en um hana hef ég rætt ítarlega
annars staðar, sjá „Tunga, samfélag og menning“, Ekkert orð er skrípi ef það stendur
á réttum stað: Um ævi og verk Halldórs Laxness, ritstj. Jón Ólafsson, Reykjavík: Hug-
vísindastofnun Háskóla Íslands, 2001, bls. 58–61. Um skylt hugtak, bendivísunar-
miðju, hef ég einnig skrifað, sbr. „Óvistlegar herbergiskytrur: Um rými og annan
hluta bókarinnar Af manna völdum“, Rúnir: Greinasafn um skáldskap og fræðastörf
Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, ritstj. Guðni Elísson, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2010,
bls. 111–132, hér bls.115–117, t.d.
VÍTT UM HEIMA