Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 118
117
ár en í þessu Kominternbréfi er tekið fram að ekki gangi til lengdar að
stjórnmálaleiðtogi eins og Einar sinni slíku starfi.13
Nú var þess skammt að bíða að hinn endanlegi úrskurður Komintern í
deilumálum innan íslenska flokksins bærist hingað til lands. Svo grátbros-
legt var ástandið um þær mundir í „forystuflokki verkalýðsins“ á Íslandi að
sjálfsagt þótti að birta dómsorðið frá Moskvu á forsíðu í Verklýðsblaðinu,
sem var málgagn hans. Þar blasir textinn enn við sé blaðinu flett.
Fyrirsögnin nær þar yfir þvera forsíðuna: „Opið bréf frá Alþjóðasambandi
kommúnista til Kommúnistaflokks Íslands.“14
Þarna slær Komintern því föstu að breytingartillaga Stefáns og Einars,
sem þeir höfðu flutt á flokksþinginu haustið 1932, væri í engu samræmi
við stefnu Alþjóðasambandsins. Í „Opna bréfinu“ segir að Stefán og Einar
hafi ekki skilið hlutverk sósíaldemókratísins á yfirstandandi tímaskeiði.
Tekið er fram að Stefán Pjetursson og nokkrir jábræður hans hafi ekki
enn fallið frá villu síns vegar. Bréfritarinn í Moskvu telur að ekki megi við
svo búið standa og hnykkir á kröfum sínum með þessum orðum: „Aðeins
járnharður agi á grundvelli marxismans-leninismans, hin óþreytandi bar-
átta á móti öllum áhrifum fjandmannastéttanna, sem verka á flokkinn utan
frá, getur gert okkur hæfa til að leysa hlutverk okkar af hendi.“ Annar
tveggja höfunda endanlegrar gerðar „Opna bréfsins“ mun hafa verið Otto
Kuusinen, finnskur kommúnistaleiðtogi sem lengi átti sæti í æðstu stjórn
Komintern.15
Með birtingu bréfsins frá Moskvu haustið 1933 urðu kaflaskil í deil-
unum innan Kommúnistaflokks Íslands. Ljóst varð að hér stefndi í flokks-
hreinsun. Vissu hámarki náði þessi skoplegi harmleikur þremur vikum
síðar þegar Verklýðsblaðið birti grein eftir Stefán Pjetursson þar sem hann
lýsti stuðningi við boðskap „Opna bréfsins“ og tekur fram að sjálfur hafi
hann annast þýðingu þess á íslensku, ásamt öðrum manni. Þessi skrif
Stefáns eru gott dæmi um hversu kolruglaðir greindir og gáfaðir menn
geta orðið séu þeir alteknir af hugmyndafræðilegri hringavitleysu.16
13 Jón Ólafsson, Kæru félagar. Íslenskir sósíalistar og Sovétríkin 1920–1960 (Reykjavík:
Mál og menning, 1999), bls. 74–75; RGASPI 495 31 117, bls. 96. Bréf Komintern
29.8.1933 til Brynjólfs Bjarnasonar.
14 „Opið bréf frá Alþjóðasambandi kommúnista. Til Kommúnistaflokks Íslands.“
Verklýðsblaðið 3.10.1933, bls. 1.
15 Sama heimild; Jón Ólafsson, Kæru félagar, bls. 74.
16 Stefán Pjetursson, „Opna bréfið og bergmál þess í borgaralegu blöðunum“ Verk-
lýðsblaðið 24.10. 1933, bls. 2–4.
BOLSÉVISERING