Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 39
38
ákveðnari stefnu en efni stóðu til. Í seinni tíð hafa sagnfræðingar athug-
að málið nánar og dregið upp skýrari mynd. Byltingarnar sem tengdust
og tókust á í Rússlandi má aðgreina eftir fjórum sjónarmiðum. Í fyrsta
lagi var um athafnir og markmið mismunandi þjóðfélagsstétta að ræða.
Borgaraleg öfl höfðu, eins og áður getur, umtalsvert vægi á fyrstu mán-
uðum byltingarinnar, en skorti þegar á reyndi bæði strategíska sýn og
fjöldastuðning; stjórnarkreppan í apríl skipti sköpum, og svo virðist sem
tregða til að afskrifa landvinningaáform hinnar föllnu keisarastjórnar hafi
við það tækifæri ráðið úrslitum. Síðar á árinu voru það byltingarkenndar
hreyfingar í borgum og sveitum sem mestu máli skiptu, og upplausn hers-
ins verður – eins og að ofan getur – að skoða sem sérstakt ferli. Áður fyrr
var sú skoðun furðu útbreidd að bolsévíkar hefðu brotizt til valda fyrir
tilstuðlan bændabyltingar, en nýlegri rannsóknir hafa gert æ meira úr hlut
verkalýðshreyfingarinnar; hún styrkti um skeið bolsévíka í stórborgum,
þótt síðan drægi sundur, og veikti að sama skapi valdagrundvöll andstæð-
inga þeirra. Á hinn bóginn komst bændabyltingin, sem mestan part átti sér
stað síðsumars og að hausti 1917, nær því að efla eigin stofnanir (fyrst og
fremst þorpskommúnuna); barátta fyrir verkamannayfirráðum náði ekki
sambærilegum árangri. En af þessari þróun spratt engin heildarstrategía.
Nær sanni er, eins og áðurnefndur Andrea Graziosi hefur sýnt fram á, að
hún hafi verið upphafið að „sovézku bændastríði“, sem stóð með hléum frá
1917 til 1933.27 Bændauppreisnir gegn bolsévíkum, einangraðar hver frá
annarri og því auðsigraðar, voru snar þáttur í borgarastríðinu sem lauk að
mestu í byrjun þriðja áratugarins, og áratug síðar náði miðstjórnarvaldið
lokasigri með „samyrkjuvæðingu“ landbúnaðarins.
Annað sjónarmið gerir greinarmun á framvindu byltingarinnar í ýmsum
hlutum stórríkisins. Samtímis viðleitni til þjóðfélagsbyltingar komu til
sögunnar þjóðernishreyfingar, mismunandi róttækar og árangursrík-
ar; þær blönduðust félagslegum drifkröftum og baráttumálum á marg-
víslegan hátt og með ólíkum afleiðingum, sem að lokum voru ekki sízt
komnar undir samskiptum og átökum við bolsévíkastjórn í sóknarstöðu.
Afstaða Leníns til þessara hreyfinga var tvíbent. Hann taldi ráðlegt og sig-
urstranglegt að viðurkenna sjálfsákvörðunar rétt þjóða, en lét aldrei vafa
leika á því að alþjóðlegir hagsmunir og markmið öreigastéttarinnar hefðu
27 Andrea Graziosi, The Great Soviet Peasant War. Bolsheviks and Peasants, 1917–1933.
Harvard Papers in Ukrainian Studies, (Cambridge MA: Harvard University Press,
1996).
JÓhann PÁll ÁRnason