Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 147
146
jafnvel „raunverulegra“ en daglegt umhverfi. Málið er líka margflókið. Það
snýst ekki bara um hluti og fólk, heldur samskipti manna í krafti tungumáls,
samspil líkama og vitsmuna, skynjun, athygli, ímyndunarafl, tilfinningar,
reynslu og þekkingu og áhrif samfélags og menningar á allt þetta.
Menn hafa haft afar ólíkar skoðanir á því hvert samband skáldskapar
og raunveruleika væri. Aristóteles leit á sinni tíð svo á að skáldskapur væri
eftirlíking af veruleikanum en á síðustu öld lögðu ýmsir áherslu á að málið
– og þá einnig skáldskapur í máli – bæri öðru fremur vitni um að veruleik-
inn væri óyfirstíganlega fjarri hverjum texta.9 Það er hann líka í ákveðnum
skilningi – þekking manna á fortíðinni er bundin textum myndu póst-
módernistar segja.10 En hversu tilraunakenndir sem textar eru, fela þeir
oftar en ekki í sér einhverja skírskotun til veruleikans. Og lykilatriði er
að tilvísunarrammi hugsana mannsins er ekki aðeins veruleikinn utan
mannslíkamans heldur mannslíkaminn sjálfur. Fyrir vikið gera ýmis skemu
og hugarferli mönnum kleift að taka gott og gilt margt það í skálduðum
heimum sem þeir eiga naumast að venjast í daglegu lífi.
Lesendur og skáldaðar frásagnir; hvers vegna hugsanlegir
heimar?
„[...] O, dásamlegt, sagði Anna. Bara ég gæti alltaf
lifað í óraunveruleikanum. Verið hreint starf heila
og ímyndunarafls.“11
Hvernig ætli menn bregðist við þegar þeir lesa tilsvar eins og þetta? Ýmsir
munu eflaust hlæja, af því að sú Anna sem lætur sig dreyma um að lifa
alltaf „í óraunveruleikanum“ er persóna í skáldsögunni Hermann og Dídí og
9 Aristóteles, Um skáldskaparlistina, þýð. Kristján Árnason, Reykjavík: Hið íslenzka
bókmenntafélag, 1997 [1976], 1447a–1448b. Nefnt skal að þótt venja sé að þýða
mimesis sem eftirlíkingu á íslensku er umdeilt hvaða skilning nákvæmlega skal
leggja í orðið. Sálfræðingurinn Keith Oatley rekur þýðinguna til Philips Sidney
og telur að útlegging hans hafi sett mark sitt á túlkun manna á Aristótelesi í fjögur
hundruð ár. Sjálfur vísar hann til Roberts Louis Stevenson og stingur upp á að
nær lagi sé að tala um mimesis sem nokkurs konar draum. Þá tjái orðið reynslu
lesenda af raunveruleikanum en á sama tíma sé gert ráð fyrir að fram fari ákveðin
hugsmíð, sjá Keith Oatley, „Að skrifaoglesa: Framtíð hugrænna skáldskaparfræða“,
Jóhann Axel Andersen og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir þýddu, Ritið 3/2012,
bls. 163–181.
10 Um afstöðu póstmódernista til tungumálsins má m.a. lesa hjá Lindu Hutcheon,
sjá A Poetics of Postmodernism: History, Theory, Fiction, New York: Routledge, 1988,
bls. 15–16 og 149 (t.d.).
11 Guðbergur Bergsson, Hermann og Dídí, Reykjavík: Helgafell 1974, bls. 28.
beRglJÓt soffía KRistJÁnsdÓttiR