Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 102
101
Eftir móttökuna stóð MÍR fyrir almennri samkomu á Hótel Borg49
þar sem sendiherranum taldist til að meira en 500 manns hefðu mætt og
hlustað á „hinn fræga íslenska rithöfund“ Þórberg Þórðarson og sovésk-
an og íslenskan tónlistarflutning. Auk sovéskra listamanna spilaði hljóm-
sveit Gunnars Ormslevs með Hauk Morthens í fararbroddi en hljóm-
sveitin hafði farið frægðarför til Moskvu um sumarið og unnið önnur
verðlaun í hljómsveitarkeppni á Æskulýðshátíðinni sem haldin var þar í
borg.50 Ermoshin var einnig mjög ánægður með ljósmyndasýningu um líf
hins almenna Sovétborgara er haldin var í Þjóðminjasafninu með aðstoð
Kristjáns Eldjárns, þjóðminjavarðar, og MÍR.51 Forseti MÍR, Halldór
Laxness, var í San Fransisco en sendi félaginu afmælisskeyti sem birt var
á forsíðu Þjóðviljans 9. nóvember.52 Virtust allir hlutaðeigandi nokkuð
ánægðir með hátíðahöldin og verður að teljast nokkuð vel af sér vikið að
hafa náð að halda svo öfluga afmælishátíð, einungis ári eftir að sama til-
efni hafði valdið mótmælum í Reykjavík. Utanaðkomandi aðstæður áttu
auðvitað stóran þátt í því, en segja má það sama um aðstæður 1957 þegar
Spútnik beindi athyglinni aftur að endalausum afrekum Sovétríkjanna og
frá fórnarkostnaðinum.
Í leiðara Morgunblaðsins hinn 7. nóvember árið 1957 var áhersla lögð á
að fátt hefði breyst í viðhorfum til Sovétríkjanna frá byltingunni: „Eftir 40
ár eru dómarnir jafnskiptir og var 1917. Öðru megin stendur hinn komm-
únistíski söfnuður, sem blessar og lofsyngur allt, sem mennirnir í Moskvu
gera og segja, en hinu megin eru allir aðrir, sem benda á staðreyndirnar
um hið blóði drifna einveldi kommúnista, sem sé harðleiknara en zarveld-
ið nokkru sinni var og miklu hættulegra en það gat orðið umheiminum.“53
Eins og við höfum séð, var þetta þó ekki alveg svona einfalt lengur og í
röðum íslenskra sósíalista voru þeir nú þó nokkrir sem voru mjög mót-
fallnir hernaðaraðgerðum Sovétríkjanna í Ungverjalandi en voru enn sam-
mála markmiðum byltingarinnar.
Orðræða íslensku dagblaðanna var brennimerkt stöðu bakhjarla þeirra í
kalda stríðinu og því kemur það varla á óvart að í afmælisgreinum Þjóðviljans,
49 Sjá Þjóðviljann 7. nóvember 1957, bls. 8.
50 Þjóðviljinn 9. nóvember 1957, bls. 12; Rósa Magnúsdóttir, „“Dansað innan Kremlar-
múra”. Íslenskur æskulýður á heimsmótinu í Moskvu árið 1957“. Ritið 2/2005, bls.
81–98.
51 GARF, f. 5283, op. 20. d. 87, ll. bls. 172–179.
52 Þjóðviljinn 9. nóvember 1957, bls. 1.
53 Morgunblaðið 7. nóvember 1957, bls. 12.
„LÍTILMAGNANS MORGUNROðI?“