Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 31
30
verð, og vel til þess fallin að undirstrika sérstöðu rússnesku byltingarinnar.
Öll framvinda hennar – upphaf, stigmögnun átaka og dýrkeyptur sigur
bolsévíka – tengdist hruni sem byrjaði með hernaðarósigrum og birgða-
skorti heima fyrir, komst á nýtt stig með lömun og upplausn efnahagslegra
og pólitískra stofnana, og endaði með hungursneyð. Sambærilegt hrun
er ekki að finna í sögu byltinga sem annars verða helzt teknar til sam-
anburðar. Franska byltingin byggði með miklu beinni hætti á stofnanaleg-
um arfi konungsvaldsins, og margir túlkendur hennar, allt frá Tocqueville
um miðja nítjándu öld, hafa lagt sérstaka áherzlu á þau tengsl. Í Kína fór
langvarandi upplausn hefðbundinna stjórnarhátta og menningarmynztra á
undan byltingunni.17
Keðjuverkun hruns og byltingar í Rússlandi verður ekki nægilega skýrð
með því að vanþróað stórveldi hafi hætt sér út í stríð sem varð því um
megn; sagnfræðingar sem á síðari árum hafa rannsakað þennan vendipunkt
rússneskrar sögu benda á flóknari stöðu og sérstakari orsakir.18 Stríðið
hafði sumpart örvandi áhrif á hagvöxt, og þátttaka ýmissa þjóðfélagshópa í
rekstri þess hefði að öðru jöfnu getað styrkt bakland keisarastjórnarinnar.
Það sem hrinti hamförunum af stað í ársbyrjun 1917 var samtvinnun óút-
kljáðra eldri mála og aðkallandi vandræða. Eftir 1905 hafði ekki myndazt
nein samstæð valdablökk; brotalöm var á sambúð keisara og hirðar annars
vegar, leifanna af þingbundinni stjórnmálaelítu hins vegar. Sú staða hefði
að öðru óbreyttu varað lengur, en kerfisvandi magnaður af stríðinu gerði
hana óviðráðanlega. Stærð rússneska ríkisins, náttúruaðstæður og land-
fræðileg dreifing atvinnuvega ollu því að brauðskortur í vaxandi stórborg-
um varð stöðugt yfirvofandi hætta. Þetta vandamál var snar þáttur í bak-
grunni rússneskrar stjórnmálasögu, allt frá síðustu áratugum keisaratímans
til fyrstu ára bolsévíkastjórnar í sovétbúningi og stórslysasigra Stalíns um
og eftir 1930. Beinasta ástæðan til harðnandi kreppu um áramótin 1916–
1917 var sú að járnbrautakerfið (sem margir höfðu talið eina helztu mátt-
arstoð rússneskrar nútímavæðingar og stórveldis-áforma) reis ekki undir
samanlögðu álagi stríðs og birgðaflutninga.
17 Þessu ferli er ágætlega lýst í grein eftir Mark Elvin: „How did the Cracks Open“
Thesis Eleven 57, 1999, bls. 1–16.
18 Þessi umræða byrjar fyrir alvöru hjá Stone (Norman Stone, The Eastern Front
1914–1917 (New York: Charles Scribner & Sons, 1975)); sjá einnig Lars T. Lih,
Bread and Authority in Russia 1914–1921 (Berkeley: University of California Press
1990).
JÓhann PÁll ÁRnason