Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 150
149
jákvæð heldur sögð koma í veg fyrir gagnrýna afstöðu manna til skáldskap-
arins eða valda því að þeir sinntu ekki skyldum sínum í raunheiminum.18
Allir textar hafa tiltekið merkingarsvið og sumir þeirra leitast beinlínis
við að líkja eftir raunheiminum. Skálduðum textum virðist þó fremur en
öðrum lagið að orka þannig á lesandann að hann „hverfi“ inn í þann heim
sem þeir lýsa. En hvers konar heimur er það sem opnast þegar lesendur
sitja með skáldaða frásögn og það sem hún segir frá verður þeim eins og
lifandi veruleiki? Í hálfa öld eða svo hafa menn reynt að skýra það með
því að sækja til háttarökfræði kenninguna um hugsanlega heima (e. possible
worlds) og þróa hana innan merkingarfræði bókmennta.19 Þannig hafa þeir
ekki aðeins talið sig verða nokkru nær um afstöðu lesenda til skáldskapar
heldur líka fengið greiningartæki sem varpaði frekara ljósi á frásagnir.
Hugsanlegir heimar
Með einföldum orðum má segja að kenningin um hugsanlega heima geri
ráð fyrir að innan raunveruleikans svonefnda séu fjölmargir heimar sem
eru hugsanlegir eða mögulegir.20 Raunveruleikinn er þá eins og alheimur
18 Sama rit, bls. 10. Ryan hefur hér eftir Wallace Martin anekdótu um franska skáldið
og heimspekinginn Diderot, sem sagður er hafa byrjað að lesa Clarissu Richardsons
til að læra eitthvað af tækni hennar en reyndin orðið sú að hann lifði sig svo inn i
söguna að lærdómurinn fór fyrir lítið. Um Jón Espólín sýslumann hefur hins vegar
verið sagt að hann hafi fengið Hannes Eiríksson og stundum Gísla Konráðsson
með sér í þingreiðar „en svo voru þeir sokknir niður í kveðskapar og söguvísindi,
að þeir viltust í miðju héraðinu, að sagt var […] sjá Símon Bjarnarson, Dalaskáld,
„Viðbætir“, Saga Eiríks Magnússonar (Mera-Eiríks), útg. Símon Dalaskáld, Eyr-
arbakki: Prentsmiðja Suðurlands, 1912, bls. 19.
19 Kenninguna um hugsanlega heima má rekja allt aftur til heimspekingsins Gott-
frieds Wilhelms Leibnitz (1646–1716) en Saul Kripke og fleiri 20. aldar menn
þróuðu hana þannig að hún varð nýtilegt rökfræðitæki, sjá t.d. Saul Kripke,
„Sema ntical Considerations on Modal Logic“, Acta Philosophica Fennica, 16/1963,
bls. 83–94 og Alvin Platinga, „Actualism and possible worlds“, The Possible and the
Actual: Readings in the Metaphysics of Modality, ritstj. Michael J. Loux, New York:
Cornell University Press, 1979, bls. 253–273. Meðal brautryðjenda í rannsóknum
á hugsanlegum heimum skáldskapar má nefna Lubomír Doležel og Doreen Maitre
auk þeirra Umbertos Eco og Thomas G. Pavels sem fyrr var minnst á.
20 Hér skal nefnt að Þorsteinn Gylfason gefur öðrum heimum en þeim sem kallaður
er raunveruleiki nafnið „handanheimar“ en Torfi Tulinius ræðir með skírskotun
til skáldsins W. H. Audens um „Hliðarheima“ (e. Secondary Worlds) sem þá heima
er tungumálið skapar „„til hliðar“ við raunveruleikann“. Sjá Þorsteinn Gylfason,
Að hugsa á íslenzku, bls. 118–119 og Torfi H. Tulinius, „Landafræði og flokkun
fornsagna“, bls. 151 og 152; sjá einnig W. H. Auden, Secondary Worlds, London
VÍTT UM HEIMA