Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 175
174
Upphaflegar viðtökur Silfurtúnglsins mótuðust mjög af pólitískum
flokkadráttum, enda leikritið fyrst og fremst lesið á pólitískum forsendum.
Það var ekki af tilefnislausu, skýr pólitísk undiralda er í verkinu sem tengist
þeim pólitísku deilumálum er kraumuðu í miðju þjóðlífsins á þessu tíma-
bili. Er þar fyrst að nefna að á árunum 1948 til 1951 gerði íslenska ríkið
samning við bandaríska herinn um flugvallaraðgengi og síðan um herstöð
og 1949 samþykkti Ísland inngöngu í NATÓ.26 Miklar deilur höfðu verið
um öll þessi mál og Halldór beitti sér af mikilli hörku í þjóðmálaumræð-
unni. Engan þarf því að undra að leikrit sem fjallar um stúlku sem er ung
og saklaus og gengur bandarískri fyrirtækjasamsteypu á hönd hafi verið
sett í samhengi við pólitískar sviptingar nýliðinna ára og gjörbreytta stöðu
Íslands í alþjóðasamfélaginu.27
Í stað þess að auðgast og njóta hins ljúfa lífs sem henni er lofað jafnt
af Íslendingum og útlendingum tapar Lóa ekki aðeins ærunni heldur öllu
því sem henni er dýrmætast. Boðskap verksins má því túlka sem allegóríu
um hlutskipti lítillar þjóðar sem tapar sérkennum og verðmætum sínum
í skammsýnni tilraun til að ganga í augunum á stórþjóðum. Samkvæmt
þessu boðar leikritið að Ísland ætti að standa utan varnarbandalaga og
vernda sjálfstæði sitt andspænis ásælni útlenskra heimsvelda. Jón Viðar
Jónsson hefur tekið undir þennan leshátt og haldið því fram að í raun
fjalli leikritið ekki um vegferð Lóu og tilraun til að verða söngstjarna því
táknsagan um „sjálfstæði Íslands“ sé mun mikilvægari.28 „Þetta skildi hver
maður þegar verkið kom fram“, bendir Jón á.29 Hér má hins vegar gagn-
rýna Jón Viðar fyrir það að vilja eigna verkinu með afdráttarlausum hætti
tiltekna þýðingu, og hafna um leið möguleikanum á margþættu ávarpi og
að fleira en þjóðernisallegórían rúmist innan þess.
Hvað efnistök og pólitískar skírskotanir varðar svipar Silfurtúnglinu
að nokkru leyti til Atómstöðvarinnar, enda hafa gagnrýnendur og fræði-
menn viljað sjá áþekka ádeilu í verkunum. Halldór Guðmundsson lýsir
26 Fyrir frekari umfjöllun um þetta, sjá Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins.
Samskipti Íslands og Bandaríkjanna 1945–1960, Reykjavík: Vaka–Helgafell, 1996.
27 Valur Ingimundarson bendir á að fyrstu fjóra áratugi tuttugustu aldarinnar hafi
Bandaríkin ekki sýnt Íslandi vott af áhuga. Í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar blasti
hins vegar við ný heimsmynd og nýtt heimsveldi, Sovétríkin, var risið. Undir slíkum
kringumstæðum komust hernaðarsérfræðingar, segir Valur, „að þeirri niðurstöðu
að yfirráð yfir Íslandi kynnu að skipta sköpum í nútímahernaði.“ Valur Ingimund-
arson, Í eldlínu kalda stríðsins, bls. 27.
28 Jón Viðar Jónsson, „Var Halldór Laxness gott leikritaskáld?“, bls. 25.
29 Sama rit, bls. 25.
bJöRn ÞÓR vilhJÁlMsson