Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2017, Blaðsíða 95
94
byltingarafmælið árið 1956 réðust Sovétmenn inn í Ungverjaland og
börðu uppreisnina þar niður með valdi. Báðir þessir atburðir ollu hörðum
viðbrögðum um allan heim – og viðbrögðin létu heldur ekki á sér standa í
röðum íslenskra sósíalista.
Vinstri stjórn Hermanns Jónassonar hafði tekið við völdum árið 1956
og óhætt er að segja að verk sósíalista hafi verið undir smásjánni sem aldrei
fyrr, bæði heima fyrir og í Sovétríkjunum, jafnt á stjórnmálasviðinu sem í
menningarlífinu.21 Mjög var því eftir því tekið hvernig helstu framámenn
íslenskra sósíalista brugðust við leyniræðu Khrúsjovs og blöskraði jafn-
vel mörgum sósíalistanum þegar nokkrir þeirra, þar á meðal Brynjólfur
Bjarnason og Kristinn E. Andrésson, gripu til varna og gerðu lítið úr upp-
ljóstrunum leyniræðunnar þegar þeir loksins tjáðu sig um málið.22 Deilur
um gildi og þýðingu ræðunnar voru að mestu háðar í blöðum og tímaritum
framan af en síðar á árinu, þegar ljóst var að Sovétmenn höfðu ráðist inn
í Ungverjaland, hörðnuðu leikar og til ofbeldis og átaka kom í Reykjavík
á byltingarafmælinu sem haldið var hátíðlegt í sendiráðinu að venju.
Innrásin í Ungverjaland hafði þannig sterkari áhrif bæði á almenningsálit-
ið og áróðursherferðina sem hrundið var af stað í kjölfarið en leyniræðan,
þó þessa tvo atburði og afleiðingar þeirra fyrir sósíalistahreyfinguna verði
að skoða í samhengi.23
Það var enginn annar en Halldór Kiljan Laxness sem ritaði hátíðargrein
Þjóðviljans á 39 ára byltingarafmælinu, 7. nóvember 1956. Í greininni fer
Halldór yfir ástæður þess að hann snérist á sveif með Sovétríkjunum, hann
taldi það „á unga aldri hlutverk sitt sem nútímamanns að reyna að átta sig á
þeirri staðreynd sem rússneska verklýðsbyltingin er.“ Skrif hans einkenn-
ast af mikilli framfaratrú: „þá kom í ljós að það afl var ekki til sem þess væri
umkomið að snúa heimsvélinni aftur í hið sama far og áður var“ um leið og
21 Sjá hér t.d. Jón Ólafsson, Kæru félagar: Íslenskir sósíalistar og Sovétríkin, 1920–1960
(Reykjavík: Mál og menning, 1999); Árni Snævarr og Valur Ingimundarson, Liðs-
menn Moskvu: Samskipti íslenskra sósíalista við kommúnistaríkin (Reykjavík: Almenna
bókafélagið, 1992).
22 Sjá t.d. Skafti Ingimarsson, „Breaking with the Past? Icelandic Left-Wing In-
tellectuals and the Era of De-Stalinization,“ Nordic Cold War Cultures: Ideological
Promotion, Public Reception, and East-West Interactions, ritstj. Valur Ingimundarson
og Rósa Magnúsdóttir (Helsinki: Aleksanteri Cold War Series, 2015), bls. 162 og
Jón Ólafsson, „Witness to an Accident: Refiguring a Stalinist Experience,“ bls.
174–188 í sama riti.
23 Sósíalistar reyndu einnig eftir megni að vekja athygli á atburðunum í Egyptalandi
en tókst ekki það ætlunarverk sitt að leggja aðgerðir Breta og Frakka að jöfnu við
aðgerðir Sovétmanna.
RÓsa MagnúsdÓttiR