Breiðfirðingur - 01.05.2018, Síða 46
BREIÐFIRÐINGUR46
ljóst hvort þær hafa allar verið í byggð á sama tíma en þó virðist sem byggð í
kringum Staðarhól hafi á ýmsum tímum verið býsna þétt, jafnvel í ætt við gisið
þorp. Í Jarðabók Árna og Páls 1705 eru nefndar tvær hjáleigur sem virðast í næsta
nágrenni: Eyjavöllur, sem þá var í eyði og talin óbyggjanleg vegna vatnsflóðs úr
Staðarhólsá (óvíst hvar bærinn hefur staðið), og Hólshús, sem upphaflega höfðu
staðið þar sem síðar reis Mikligarður (JÁM VI, bls. 161). Í örnefnalýsingu eru
nefndar enn fleiri hjáleigur: Fjósakot, Imbutóft (bústaður einsetukonu), Hólkot,
Vindheimar og Goddastaðir (ÖStaðarhóll). Goddastaðir virðast ekki þekktir í
dag og engar sannfærandi tóftir fundust sem koma heim og saman við lýsingu
á staðsetningu bæjarins. Bæði Fjósakot og Imbutóft munu horfin, ýmist vegna
bygginga eða túnasléttunar. Þar sem Fjósakot stóð áður eru nú leifar af fjárhúsum
og hlöðu austan og ofan bæjar. Hins vegar fundust heillegar bæjatóftir sem
virðast stemma við lýsingu á bæði Vindheimum og Hólkoti. Vindheimar eru á
Réttareyri, vestan bæjar, en Hólkotið í hásuður frá bæ, nálægt landamerkjum móti
Miklagarði – og hugsanlegt er að það sé sami staður og Hólshús sem jarðabókin
nefnir. Báðar bæjatóftirnar eru ótrúlega heillegar þótt þær láti lítið yfir sér, enda
báðar á mjög þýfðu láglendi og sjást varla fyrr en stigið er upp á tóftarveggina. Í
báðum rústunum, sem eru svipaðar að gerð, mótar vel fyrir bæjargöngum og
ýmsum vistarverum út frá þeim: líklega skálum, baðstofum, skemmum o.fl. og
Uppdrættir af tveimur litlum bæjartóftum í nágrenni Staðarhóls.