Breiðfirðingur - 01.05.2018, Síða 67
BREIÐFIRÐINGUR 67
döngun í sér til að þýðast þær og verða ógæfumenn. (Gráskinna I, 153, 248; JÁ
I, 79; III, 69, 79, 143; MG, 243.)
Á Jörfa í Haukadal var sagt að jafnmargir ósýnilegir og sýnilegir hefðu tekið
þátt í hinni nafntoguðu gleði um 1700, og fyrir aðeins 30 árum kvaðst Þorsteinn
bóndi hafa séð ókennilega stúlku og heyrt margraddaðan söng úr Sauðabólskletti.
Þar sem sungið var: Kvöldið er fagurt, sólin sest og sefur fugl á grein. Þess má geta
að Þorsteinn var tengdaafi Sivjar Friðleifsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra.
Á Þorbergsstöðum, þar sem ég ólst upp, hafði huldukona refsað nafngreindum
manni fyrir að slá blettinn hennar svo að handleggur hans visnaði. Fólkið mitt
mundi eftir þessum manni. (MG, 241; Skrudda I, 174.)
Hvammssveit og Fellsströnd
Ásgarðsstapi í Hvammssveit stendur einn í miðjum flóa. Þangað var kona sótt tíu
ár í röð til huldukonu í barnsnauð og tekst með leynd að bregða þar töfrasteini á
annað auga sitt og verður skyggn á því. Síðar sér hún huldumanninn í kaupstað í
Stykkishólmi og er of bráð á sér að ávarpa hann. Hann rekur þá fingur í augað á
henni svo hún verður blind á því. Svipuð saga er frá Bessatungu í Saurbæ, þar sem
þeir bjuggu skáldin HólmgönguBersi og Stefán frá Hvítadal. Í sóknarlýsingu
síra Þorleifs Jónssonar í Hvammi frá 1839 er getið um álfasögur tengdar Ás
garðsstapa, en hann víkur ekki einu orði að dultrú í tengslum við stapann hjá
Sælingsdalstungu, sem ég ætla að fjalla nánar um á eftir þessu yfirliti. (JÁ I, 19,
32; III, 29; ÓD I, 66).
Á Fellströndinni heyrðu menn heilan sálm raulaðan út úr kletti, í Skoravík
fær huldukona að mjólka bestu kú húsfreyju, á Staðarfelli brann bærinn árið
1808 af því að vinnumenn hrundu álfasteini fram af sjóarbökkum. Um miðja
18. öld hafði húsfreyjan á Staðarfelli hinsvegar jafnan dúkað veisluborð handa
huldufólki á gamlárskvöld. Á Kjarlaksstöðum heyrði lítill drengur hringdanslag
leikið úr kletti. Í Arnarbæli sá vinnumaður ferðbúna huldukonu á nýárskvöld og
í annað sinn sáust þar ókennd tröf til þerris á hríslum og smali heyrðist reka fé
ásamt hundi í kjarrinu. Á Ormsstöðum læknaði huldukona mennskt barn og þar
sáust ókenndir menn standa yfir fé á beit, en í Dagverðarnesi sást huldustrákur
leika sér. (JÞ, 319; Gráskinna II, 107; MG 238, 244; JÁ I, 27, 32, 119; VI, 6,
10, 30; ÓD I, 93).