Breiðfirðingur - 01.05.2018, Qupperneq 86
BREIÐFIRÐINGUR86
hefði sinn blæ á fólkinu, t.d. er annar blær eða útlit á Þingeyingum heldur en
Dalamönnum. Komi maður inn í tvö hús, sem líta misjafnlega út, annað svo
hreint eins og hús getur verið hreinast. Allt innanhúss hreint og skemmtilegt,
allt svo fallegt. Hitt húsið er í alla staði óskemmtilegt, ryk á öllum hlutum og
ósmekklega um allt gengið. Þegar maður lítur yfir báðar íbúðirnar, þá sér maður
að útlitið er gjörólíkt, misjafnlega geðugur blær yfir þessum íbúðum.
Þegar eg var í Hjarðarholti, þá gengum við Jóhannes úr Kötlum, tveir einir,
frá Hjarðarholti til Búðardals. Umtalsefnið var fólkið í Hjarðarholti, fyrst
heldra fólkið og vinnufólkið á eftir. Jóhannes segir þegar hann er búinn að lýsa
starfsfólkinu: „Það ber þess blæ, að það hefur verið með prófastsfólkinu. Það
er vel til haft, hreint og þokkalega búið, ófeimið, glatt og skemmtilegt. Það
hefur aðlaðandi framkomu og hlýlegt viðmót. Það er til, að vinnufólk mótist af
mikilsvirtum húsbændum“.
Sveitafólkið hafði í gamla daga dekkri andlitsblæ heldur en kaupstaðarfólkið.
Það var hvítara í andliti fólkið í sjóplássunum; það gerði fiskátið.
Róðrarnir
Formaðurinn minn hét Daníel Sigurðsson. Hann fiskaði illa, en hafði þó duglega
karla. Það höfðu sumir helmingi meiri afla heldur en hann. Hann var góður
formaður. Hann er löngu dáinn.
Það voru yfirleitt tíu menn á hverju skipi fyrir utan formanninn. Það var allt
fiskað á línu. Hún var beitt áður en farið var á sjóinn. Mér þótti beitningaskúrinn
frekar óaðgengilegur. Hann var allur útataður í úldnum grút, hann mátti heita
heil viðurstyggð. Skinnklæðin voru heimasaumuð, öll í grút. Skórnir voru úr
þykku leðri. Það var alltaf róið í 20 gráðu frosti, ef hægt var að komast út fyrir
ís. Það einkennilega var, að manni var aldrei kalt, þó frostið væri 20 gráður. Þó
vettlingarnir yrðu margfaldir af krapi þá barði maður úr þeim krapið og lét þá svo
á sig aftur og þekkti ekki kulda á sjónum. Verst þótti mér við róðrana að bera upp