Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Side 5
B r ý r o g h i m n a r
TMM 2018 · 2 5
Guðmundur Andri Thorsson
Brýr og himnar
Ljóð Þorsteins frá Hamri eru dyr að draumi, í þeim smíðar skáldið brýr og
himna og bærir línhjúp loftsins og hvert orð er þar atvik. Höfundarverk hans
er mikið að vöxtum og jafnt að gæðum – ljóðabækurnar 26, skáldsögurnar
þrjár og einnig bækurnar með sagnaþáttum – og hægt er að nálgast það úr
ýmsum áttum, hugsa um það út frá ýmsum hliðum. En það er ekki auðvelt
að skrifa um ljóð sem eru slík dvergasmíði.
Ekki er nóg að segja „Ljóð Þorsteins frá Hamri eru um …“ en það er heldur
ekki hægt að láta sér duga að andvarpa: „Ljóð Þorsteins frá Hamri bara eru“.
Þau standa einfaldlega í þannig sambandi við veruleika okkar og skynjun –
tungumálið, söguna, landið, veðrið, samviskuna og allar geðshræringarnar.
Við vitum að þau fjalla um eitthvað mikilsvert sem brýnt er að brjóta heilann
um þó að hitt geti vafist fyrir okkur, að koma orðum að því. Kannski háttar
þannig um alla ljóðaumfjöllun; hún er stödd á því varasama svæði sem er á
milli þess að segja ekki neitt og þýða ljóðin yfir á hvunndagslegar hugsanir.
Við nálgumst stundum ljóð eins og drauma eða heilaþrautir sem þurfi á
nokkurs konar ráðningu að halda; það þurfi að ráða ljóðið eins og drauminn
eða gátuna, en þegar við gerum slíkt – segjum til dæmis að þoka í ljóði
standi fyrir fjölmiðlaumfjöllun – þá verður ekki endilega allt ljóst að bragði
heldur sviptum við ljóðið því sérlega. Þar með er ekki sagt að ljóð séu ekki
merkingarbær eða orki ekki á hugsun okkar, skynjun og jafnvel, þegar vel
tekst til, lífsviðhorf og sýn. Öðru nær. En ljóð og almælt tíðindi eru hvort á
sínum enda í málnotkun okkar.
Reyni maður með öðrum orðum að smeygja ljóðum Þorsteins inn í gamal-
kunnar merkingarkvíar („Hér er hann að yrkja um landhelgismálið, þarna
um kvótakerfið, og þetta ljóð fjallar um bílastæðavandann í miðbænum“)
finnst manni óðara sem maður sé að svipta þau einhverju sem öllu varðar,
maður sé að missa úr höndunum það sem er mikilsvert; maður sé að þýða
gullinn texta yfir í dægurmál. Ljóð eru textar sem flytja hugmyndir, kenndir
og tengingar sem ekki verður komið öðrum orðum að. Þau starfa á sinni
sérstöku tíðni.
***