Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Side 11
B r ý r o g h i m n a r
TMM 2018 · 2 11
Kvæði,
vertu húsaskjól hugbresta minna.
Vertu þeim háborg
vígi
iðrunarklefi.
Líði af heiðum lækur um gólfið þvert.
(„Bæn“, Urðargaldur, Ritsafn, 470)
Svona ljóð koma af og til fyrir í bókum Þorsteins, eintal sálarinnar eða
kannski öllu heldur bæn skáldsins sem beinist að sköpunaraflinu hið innra,
sem stundum hefur verið kennt við „guðsröddina í brjóstinu“. Svona yrkja
meistarar; í fáum öruggum dráttum svo að úr verður fögur smíð þar sem sér-
hver meitluð lína vísar á stærra og meira. Við getum staldrað ögn við ljóðið
því að þar er svo margt samankomið af einkennum Þorsteins, og sýnir líka að
þegar hér var komið var hann tekinn að einfalda ljóðmál sitt nokkuð. Ljóðið
er nokkurs konar þríliða (þrjú „erindi“), þar er einföld myndhverfing, þar er
stuðlun en frjálsleg þó og þar er teflt saman mannvirkjum og frjálsri náttúru.
Þetta ljóð fjallar um það svæði sem skáldið skapar sér þegar ort er. Skáldið er
hér að innrétta ljóðheim sinn, og biður þess að hann sé í senn fagur og víður
(háborg) og sparlegur, þröngur (iðrunarklefi) en líka „vígi“; þetta er svæði til
að hylla og varðveita verðmæti (háborg), deila á óréttlæti og berjast (vígi) og
iðka óvægna sjálfskoðun (iðrunarklefi). En forsendan fyrir því að lífvænlegt
verði er auðvitað að lækur renni af heiðum þar um gólf.
***
Síðasta ljóðabók Þorsteins frá Hamri heitir Núna. Þannig snýr skáldið góð-
látlega á þá lesendur sína sem alltaf voru að tala um að hann væri með allan
hugann við hið liðna. Um leið er hann búinn að gera skáldlegt orð úr nokk-
urn veginn eins útjöskuðu hvunndagsorði og hugsast getur. Það er í anda þess
hvernig Þorsteinn leitaðist á seinni árum við að einfalda ljóðmál sitt, gera það
tærara, hvað varðar orðfæri, myndir og vísanir. Bókin opnast eins og hann
iðkaði stundum í síðustu verkum sínum á skáletruðu ljóði sem þjónar sem
nokkurs konar greinargerð. Það hefst á þessum orðum: „Ljóð okkar, þau eru
líðan okkar hverju sinni, / og hafa sér til afbötunar að hugsanlega finni / aðrir
fyrir einhverju svipuðu um líkt leyti.“ (Núna, 2016). Bókin og þær myndir
sem þar eru dregnar upp – eins og margar af bókunum í þessum lokasköp-
unarspretti skáldsins – lýsa þrá eftir því að lifa til fulls augnablikið – vera –
og einmitt núna: „enn er ég / hægt og seint / að verða til“ eins og segir með
nokkuð tvíræðum hætti í ljóðinu „Á leiðinni“ í bókinni Allt kom það nær,
2011, en „að verða til“ getur líka þýtt í gömlu máli að deyja.
En seinasta bók skáldsins heitir sem sagt Núna. Og seinustu síðurnar í