Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Page 14
H a l l f r í ð u r J . R a g n h e i ð a r d ó t t i r
14 TMM 2018 · 2
Hallfríður J. Ragnheiðardóttir
„En er hún fer …“
Erindi flutt á Leirubakka 19. maí 2017
í tilefni af 80 ára afmæli Davíðs Erlingssonar1
„Ég ætla að tala um Brísingamen,“ sagði ég við læriföður minn, Davíð
Erlings son, þegar hann bauð mér í afmælishófið sitt. „Það líst mér á,“ ansaði
hann. „Mér finnst þú eigir að taka Brísingamen í botn!“ Tilsvarið var mjög
í anda Davíðs. Mér er til efs að margir hugsuðir hafi komist nær botninum
í viðfangsefnum sínum en hann. Ég tók þessi orð hans sem áskorun. En til
þess að komast til botns í Brísingameni þarf ég að hafa Freyju með í för, því
Brísingamen var eignað henni.
Mynd sænska listamannsins Anders Zorn af Freyju (sem prýðir kápu þessa
tímaritsheftis) sýnist nokkuð ljóslega innblásin af lýsingu Snorra Sturlusonar:
„En er hún fer, þá ekur hún köttum tveim og situr í reið.“2 Þetta ræð ég af
kattarhöfðunum sem prýða armana á sæti gyðjunnar. Freyja er hér þó ekki
að fara neitt, heldur situr hún í stól í hofi sínu eða skemmu. Förin er með
öðrum orðum huglæg. Það er völvan Freyja sem er uppspretta andargiftar
listamannsins og viðfangsefni.
Árið sem ég útskrifaðist úr íslenskudeildinni gaf ástsælt skáld mér silfur-
hálsmen í draumi og lét silfurlyklahring fylgja með. Ég skildi það svo að
mitt væri að finna lykilinn. Brísingamen Freyju kom mér strax í hug. Í M.A.
ritgerðinni hafði ég tæpt á Gullveigu og Heiði í neðanmálsgrein og haft á
orði að ef ég ætti eftir að skrifa doktorsritgerð myndi hún fjalla um þær. Ég
hafði raunar engin slík áform í huga en yfirlýsingin var vísbending um tökin
sem þær stöllur höfðu náð á mér. Heiður er algengt heiti á völvum í fornum
sögum og er á Völuspá að skilja að völvur hafi verið líkamningar Gullveigar
í mannheimum. Þótt ég hafi ekki skilið það þá kom þessi draumur inn í líf
mitt líkt og til að minna mig á að ég ætti verk óunnið.
Einu heillegu frásögnina af því hvernig Freyja öðlaðist menið er að finna
í Sörlaþætti og hún hljóðar í hnotskurn svona: Freyja kemur að steini sem
stendur opinn. Inni fyrir eru fjórir dvergar að smíða gullmen. Hún dregst að
meninu, hana langar í það og hún býður fram gull og silfur og góða gripi.
Dvergunum finnst hún að sama skapi hrífandi og vilja þá borgun eina að
hún sofi sína nóttina hjá hverjum þeirra. Hún lætur að ósk þeirra og kemur
til baka í skemmu sína með hnossið.3
Í aðdragandanum að för Freyju inn í steininn er lýst styrk hennar og óskor-