Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Qupperneq 25
U n d a n h l a u p
TMM 2018 · 2 25
þá byrjaði ég að hlaupa. Mig langar að skálda í eyðurnar og segja að eitt-
hvert afl togi mig áfram þegar ég hleyp, og ég fylgi nauðug eftir. Þvert á
móti. Ég byrja einfaldlega, því fylgir ekki eftirvænting eða skelfing eða
nauð; ég vil hlaupa, mér líður eins og ég ráði ferðinni, að ég geti stoppað
hvenær sem er.
Hélt áfram, fram og til baka, rannsakaði smáatriðin, hljóp nokkrar
ferðir þar sem ég starði upp í loftið eða skimaði um gólfið, rósetturnar
voru allar eins, gólffjalirnar allar eins, gluggakarmarnir allir jafnlúnir
og flagnandi. Hlaupið byrjaði aldrei á sama stað en ég hljóp alltaf yfir
miðjuna sjálfa. Í einhverjum ferðum hló ég eins og vitleysingur, skríkti
og kastaðist áfram, hugsaði um kerlinguna á neðri hæðinni sem sat
undir dynkjunum í mér.
Eftir aðrar ferðir stirðnaði ég af skelfingu, fékk í magann, handviss
um að það væri draugur á miðjum ganginum, einhver sem fylgdist með
mér.
Núna sit ég við skrifborðið og skrifa þér þetta langa bréf. Axlirnar
stífar og upptrekktar. Mér er illt í hálsinum. Hugurinn er ekki tengdur
hendinni. Orðin skrifa sig sjálf. Ég er hérna og annars staðar.
Get ekki hlaupið þennan gang aftur.
Ekki aftur. Ekki aftur. Ekki aftur.
Veit ekki hvert ég myndi fara ef ég gæti manað mig upp í að hlaupa
hann einu sinni enn. Hótelið er löngu lokað. Ég er bíllaus. Það er óveður.
Verð bara að halda áfram að skrifa. Það er eina leiðin til þess að
gleyma hræðslunni sem fylgir þegar él strýkur rúðu eða vindurinn
syngur háa nótu eða þegar skuggi hreyfir vegg. Fékk mér þrjá banana
í kvöldmat og nú finn ég skrítna svitalykt gjósa upp úr kokinu á mér.
Tannburstinn er við eldhúsvaskinn. Ég veit ekki hvort er verra, að hafa
ganginn bjartan eða dimman. Rofinn er hérna við skrifborðið og ég
kveiki og slekk á víxl.
Fyrrverandi varð reiður þegar ég varð myrkfælin. Fyrst fannst honum
það krúttlegt þegar ég hljóp inn í svefnherbergi, hentist upp rúm, límdi
iljarnar við sköflunginn á honum. Svo fór hann að verða pirraður á öllu
sem ég gerði – yfir því að vera vakinn á nóttunni eftir martraðir, beðinn
um að fylgja mér niður til að sækja vatn. Það var á slíkri nótt sem ég
skildi að við ættum ekki að vera saman. Ég þorði ekki niður og var mjög
þyrst. Ég hugsaði: Hver sækir ekki vatn fyrir þann sem hann elskar?
Svo rann það upp fyrir mér: Þessi maður elskar mig ekki.
M.t.t. hlaupa og húsa þá er skilnaðurinn eins og hús með mörgum
tveggja dyra herbergjum. Eins og hús ömmu og afa. Við hlupum hring