Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Blaðsíða 28
F r í ð a Í s b e r g
28 TMM 2018 · 2
Helvítis læti voru þetta í gær.
Fyrirgefðu. Ég áttaði mig ekki á þessu.
Það hlýtur að vera eitthvað fast í þér, sagði hún svo og haltraði frá
opnum dyrunum. Ég tók því sem merki um að mér væri óhætt að ganga
í bæinn.
Einhver hnútur, andvarpaði hún (reiðilega) án þess að útskýra neitt
frekar og setti ketil á eldavélina. Ég barðist við óþolinmæðina yfir sér-
viskunni í henni. Þetta var tilgerðarleg sérviska. Að haga sér eins og spá-
kona eða bollakerling og predika svona yfir mér. Síðan hallaði hún sér
upp að vaskinum og starði stíft á mig. Höfuðið á henni dúaði aðeins,
eins og hún væri með mjög væga taugaveiki. Þá mundi ég að presturinn
hafði sagt mér nafnið hennar. Dúa.
Séra Magnús sagði að ég hefði sogast inn í einhverja orku, sagði ég.
Eitthvað hefur það verið. En þú getur ekki hætt?
Svo virðist ekki vera.
Þannig að þú spólar bara eins og dekk í drullu, sagði hún. Slök húðin
sveiflaðist til undir hökunni. Geturðu ímyndað þér hvað gæti setið
svona í þér?
Ég veit það ekki. Ég missti bróður minn.
Hún leit út um gluggann. Langt síðan? spurði hún.
Fjögur ár.
Og ertu enn að syrgja? Ergin búin að mildast aðeins.
Nei, ég er búin að syrgja hann, svaraði ég.
En?
Við vorum tvíburar.
Kerlingin hellti í tvo tebolla (með tepokum, ekki spádómslaufum) og
rétti mér annan. Síðan settist hún niður á móti mér. Hendurnar hertu
og losuðu takið á bollanum á víxl.
Ég skrifa honum reyndar ennþá, viðurkenndi ég og saup á teinu til að
hafa eitthvað fyrir höndum.
Bréf? spurði hún, og selsaugun hvörfluðu snöggvast til minna eigin
handa. Það flaug í gegnum höfuðið á mér að hamurinn hennar væri
hvítur og brúnn á litinn. Eins og á haustrjúpu.
Já.
Ertu að skrifa honum núna?
Já.
Kerlingin andvarpaði þunglega: Ljúktu við bréfið og sendu það strax.
(Hún skellti flötum lófa á borðið sér til málstuðnings.) Stundum nær
maður ekki að syrgja almennilega. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir
því. En svo er hitt, að hvað sem er getur orðið að kláða. Í þínu tilfelli