Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Síða 30
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
30 TMM 2018 · 2
Kristín Ómarsdóttir
Ég er gamall snillingur
Viðtal við Eileenu Myles skáld og rithöfund
Að leita merkingar orðanna hreinskilni, heiðarleiki, einlægni minnir á leit
að nál í heystakki; þetta eru sjaldgæf fyrirbæri á opinberum vettvangi og í
stjórnmálum; það kann að breytast. Skáldsagan Chelsea Girls eftir Eileenu
Myles er keyrð áfram af æðisgengnum heiðarleika, krafti, eldmóði, eirðar-
leysi, hraða, stillingu, yfirvegun, hlýju – hlýja stílsins minnir á nærveru
manneskju sem maður vissi ekki að maður saknaði fyrr en maður les bókina;
bækur hafa skrítin áhrif. Guði sé laun fyrir Eileenu sem skrifaði bók um
stelpur – ungar konur – brjálaðar – kúgaðar – skakkar – fullar – á amfeta-
míni, á kóki – hraustar – ástsjúkar – í fleiri stelpur – þar sem höfundurinn
felur sig ekki á bakvið orðin einsog undirrituð. Vonandi kveikir framtíðin
ekki í blaðsíðunum.
Hefur þú keypt egg með fimm eggjum í bakkanum? Nei, svara ég, sest í
stól og legg tölvuna á fótskemil. Eileen brýtur eggin fimm í bláa skál, hrærir
og skellir á pönnu. Úti er svalt, birtan ekkóhvít, hér inni forngrá og sést ekki
í veggi fyrir bókum eða í gólfið. Augu mín lesa bókartitlana einsog nótur.
Eldhús, sófi, sófaborð, þessi stóll, útidyrahurð – bakvið mig eru skrifstofa
og svefnherbergi í sameiginlegu rými með gluggum. Brunastigi liggur upp
eftir gaflinum handan glugganna. Hún er búin að gefa mér kaffi. Ég borðaði
dágóðan morgunmat svo Eileen borðar eggjahræruna ein.
Við hittumst fyrst á Kjarvalsstöðum í maíjúníkvöldbirtu fyrir tuttugu og
einu ári. Hvað ég var stolt af nýburstuðum skóm. Þeirra vegna þurfti ég ekki
spariföt einsog hinir gestirnir, fötin nýkomin af snúrunum. Íslenskur lista-
maður við langa málsverðarborðið í sýningarsalnum útskýrði fyrir Eileenu
hvað orðasambandið að gera hvítar nætur* þýddi = fremja sjálfsmorð. Tilefni
uppspunans: björtu heimskautanæturnar sem við héldum þá að ættu ekki
sinn líka annars staðar í heiminum.
Dúkurinn var hvítur einsog þær, skórnir hermannasvartir, listamaðurinn í
jakkafötum, Eileen í gallabuxum og bláum T-bol. Hún var ein úr hópi Banda-
ríkjamanna sem stóðu fyrir sýningunni í aðalsalnum sem var opnuð um
kvöldið. Af sýningunni man ég eftir verkinu með brjóstsykrinum eftir Felix
Gonzalez-Torres, hann var þá nýlátinn úr AIDS, ekki fertugur.
* Á ensku kallaði listamaðurinn fyrirbærið: to do a white night.