Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Qupperneq 55
J ó l a p l a t t a r n i r
TMM 2018 · 2 55
verið, en mér þótti það fráleitt og bað hana gæta þeirra beggja meðan ég
væri fjarri. Þetta féllst hún á, með semingi þó.
Það fiskaðist allvel á Breiðafirði þessa sumarvertíð og heima á
Breiðabólstað komust menn og skepnur allvel af þegar af leið haustið
og veturinn. Þorrinn varð harður og gott var að eiga rikling að maula
þegar fennti fyrir alla glugga. Um miðja góu barst svo nýr böggull frá
Dýrfinnu. Þessi platti hét Spurvenes julemåltid og sýndi þrjá spörfugla
sem gæddu sér á korni af bundum sem einhver dýravinur hafði fært
þeim mitt í hvítum vetri. Við systkinin horfðum lengi þegjandi á þessa
glansandi fegurð áður en við skiptum á milli okkar þurrum magál sem
við áttum í aski frá því viku fyrr.
Þegar hér var komið sögu þótti Friðmey húsmóður okkar ekki lengur
við hæfi að við Guðríður svæfum í sömu rekkju, þar eð við værum
komin svo vel á legg að af kynnu að hljótast slys. Mér var því skipað í
rúm með Runólfi, föður Hróbjarts, en Guðríður deildi sæng með Svein-
björgu vinnukonu. Guðríður átti áfram rekkju við þilið, svo þar máttu
plattarnir okkar áfram hanga. Ég átti aftur á móti hvílu í baðstofunni
miðri. Guðríði fannst að ég ætti fyrir alla muni að hafa að minnsta kosti
einn jólaplatta hangandi við rúmið mitt og þó að mér þætti það hreinn
hégómi linnti hún ekki látum fyrr en kominn var nagli í sperruna fyrir
ofan rúmið okkar Runólfs og þar hékk Nymåne over snedækkede graner.
Runólfur lét illa í svefni. Við sváfum andfætis og oft fékk ég frá
honum spörk, ýmist undir höku, í brjóstið eða í hreðjar. Ekki var það
þægilegt, það geta þeir allir vottað sem reynt hafa, en þó var ég furðu
fljótur að venjast þeim pústrum sem gamli maðurinn veitti mér á meðan
við deildum rekkju. Þó gat það gerst að draumfarir Runólfs yrðu svo
magnaðar að fæturnir leituðu út undan sænginni og upp um rjáfrin. Það
urðu mínar verstu nætur. Ég sá hann skella hælum í þekjuna svo moldin
sáldraðist yfir okkur og um leið sá ég í anda hvernig hann myndi sparka
jólaplattanum ofan og mölva hann í smátt. Því gerðist það æ ofan í æ
að ég spratt upp og hrifsaði plattann af naglanum, stakk honum inn á
mig undir nærskyrtuna og krosslagði arma á brjóstinu svo ég gæti aftur
sofnað.
Þau urðu tuttugu og eitt, árin okkar Guðríðar í Dölunum. Eftir að
Friðmey húsmóðir okkar andaðist fluttum við að Fellsmúla, síðan í
Hundadal og víðar og ein fjögur ár vorum við í Ljárskógum. Eitt og
annað dreif á daga okkar og víst mætti færa af því margt og misjafnt í
frásögu, en þó var eitt sem aldrei brást: Á hverju ári barst okkur gjöf frá
Dýrfinnu frænku.
Við áttum orðið Julestjærner og juleroser, Kragerne hygger sig, Det