Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Blaðsíða 63
M i t t í m e r k i n g a r k r í s u n n i
TMM 2018 · 2 63
Snorri Páll
Mitt í merkingarkrísunni
Um – og í kringum – 11. september og Aftur
og aftur eftir Halldór Armand Ásgeirsson
„Heimurinn er að breytast, breystu með honum.“
Auglýsing alþjóðlegs fjárfestingafyrirtækis á
forsíðu The Guardian 21. mars 2003, undir
umfjöllun um upphaf Íraksstríðsins síðara
– árás Bandaríkjahers á Bagdad daginn áður –
sem sjónvarpað var beint um víða veröld.
1.
Um miðjan september 2001 tilkynntu aðstandendur tónlistarhátíðarinnar
Hamburger Musikfest að hætt hefði verið við ferna tónleika með verkum
þýska tónskáldsins Karlheinz Stockhausen. Ákvörðunin var sögð eiga sér
orsök í nýföllnum orðum hans – ógeðfelldum og ónærgætnum að mati blaða-
manns Frankfurter Allgemeine Zeitung1 – um árásirnar á tvíburaturnana í
New York fyrr í sama mánuði; „árásirnar á andleg heimkynni kapítalismans,“
eins og einn ritstjórinn komst að orði.2 Á blaðamannafundi vegna tónleikanna
höfðu komið til tals þau Eva, Mikael erkiengill og Lúsífer – biblíupersónur
sem gegna viðamiklum hlutverkum í Licht, tæplega þrjátíu klukkustunda
löngum óperuhring Stockhausens – og var þýski tónsmiðurinn spurður hvort
þar væri um að ræða einberar sögupersónur úr fyrndinni. Nei, svaraði hann,
sagði þau ekkert síður á kreiki í dag og nefndi Lúsífer sérstaklega í sambandi
við atburðina þann 11. september. Í kjölfarið fylgdi svo fullyrðingin sem
olli uppnáminu – á eftir því fororði að fundargestir skyldu nú „stilla í sér
heilann“ – að árásirnar væru „mesta listaverk allra tíma“, framkvæmdar af
mönnum – eða öndum – sem afrekað hefðu nokkuð sem tónlistarmönnum
og tónskáldum leyfðist tæplega að láta sig dreyma um: varið tíu árum í undir-
búning fyrir einn, stakan gjörning, dáið á hátindi flutningsins, og tekið í
leiðinni fimm þúsund manns með sér til handanheima. „Slíkt væri ég ekki
fær um,“ sagði Stockhausen.3
Í grein sendri tónlistartímaritinu The Wire fljótlega eftir árásirnar, sem
fékkst reyndar að endingu ekki birt, hélt breski marxistinn og menningar-