Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Blaðsíða 77
M i t t í m e r k i n g a r k r í s u n n i
TMM 2018 · 2 77
sem einhver einhverstaðar muni brátt breyta þessu
Öll erum við hluti af stórfjölskyldu Guðs
og sannleikurinn er – eins og þú veist
að allt sem við þörfnumst er ást.63
Ljóðið, We are the World, sungu flytjendurnir einmitt í sameiningu undir
lok dagskrárinnar þann 7. september 2001, en ekki á seinni afmælistón-
leikunum þremur dögum síðar, enda hrundu slíkir órar til grunna fimm
kílómetrum sunnar morguninn eftir: fjórum dögum eftir súrrealismann í
Madison Square Garden var stórfjölskyldan sundurtætt og klofin. Í vikunni
á eftir lék áðurnefndur Peter Lamborn Wilson sér að ummælum þýska heim-
spekingsins Theodors W. Adorno um stöðu ljóðsins eftir helförina, sem með
árunum hafa orðið á þá leið að eftir Auschwitz sé ljóðlist óhugsandi. En
okkur tókst að endurheimta hana, sagði Wilson: „Vera má að merking hennar
sé önnur en áður. Vera má að hún merki ekki neitt. En hún er hér. Og hver
hefði látið sig dreyma, við inngangshliðin að Buchenwald eða Treblinka, að
einn góðan veðurdag hefðum við – Nike auglýsingar og sápuóperur um lög-
fræðinga?“ Og hann hélt áfram:
Mun einhver merking koma í ljós um atburðina 11. september? Án merkingar
lýkur harmleik ekki með geðhreinsun, heldur einfaldlega geðdeyfð, endalausum
sorgum. Leiðtogar okkar „leitast eftir uppgjöri“ – kannski með því að myrða urmul
afganskra barna – kannski með nýrri krossferð gegn Sarasenunum – og vitaskuld
með því að snúa aftur til hins venjulega. Við munum sýna „þeim“ – með því að
hafna merkingunni. Við munum sofa því það er okkar réttur að hrökkva ekki upp
við fát og skömm.64
Innan við mánuði síðar réðst Bandaríkjaher á Afganistan – þó reyndar væri
þar „lítið eftir að sprengja“65 – og hóf stríð sem enn er í gangi og leitt hefur
til dauða 50–70 þúsund manns. Tveimur árum síðar hófst Íraksstríðið hið
síðara – endurtekin herferð gegn Sarasenunum – sem getið hefur af sér allt
að því tífalt fleiri lík en hið fyrrnefnda. „Við munum vinna bug á skömm
okkar,“ sagði jú Wilson. „Og það verður hefnd okkar. Það verður merking
okkar. Siðferði okkar.“66
4.
Ljóðið sem flutt er rafbjagað í áðurnefndu verki Stockhausens, Söng ungl-
inganna (þ. Gesang der Jünglinge), er úr tíðasöng tengdum sögu úr Daníelsbók
Biblíunnar, texta sem á sér hliðstæðu í Sálmunum. Úr Jerúsalem hafði Nebú-
kadnesar Babýlóníukonungur látið velja „sveina nokkra, er engin líkamslýti
hefðu og væru fríðir sýnum, vel að sér í hvers konar vísindum, fróðir og vel
viti bornir,“ til að þjóna í höll sinni. Meðal þeirra var Daníel sem gat ráðið
nokkra drauma konungs – eða mátti þann „leyndardóm auglýsa,“ eins og
segir í Biblíunni – ásamt þeim Hananja, Mísael og Asarja, sem gefin voru