Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Síða 124
124 TMM 2018 · 2
Maríanna Clara Lúthersdóttir
Efni og áferð
manneskjunnar
Kristín Eiríksdóttir: Elín, ýmislegt. JPV
útgáfa 2017. 182 bls.
Elín, ýmislegt er önnur skáldsaga Krist-
ínar Eiríksdóttur og við fyrstu sýn
nokkuð frábrugðin fyrri verkum hennar.
Þó má finna kunnuglega þræði sem
tengja verkin og raða þeim upp í heillega
mynd sem sýnir kannski fyrst og fremst
sársaukafullt brot innra með manneskj-
unni. Brot sem felst í fyrirfram tapaðri
baráttu fyrir því að skilja okkur sjálf og
rætur okkar – því ræturnar eru gegn-
sýrðar af eitri fyrri kynslóða, áföllum
sem þær urðu fyrir og hafa ekki unnið
úr. Persónur í verkum Kristínar eru af
þessum sökum (og öðrum) jaðraðar og
eiga í erfiðleikum með að fóta sig í sam-
félaginu. Hversu sýnilegir þessir erfið-
leikar eru öðrum er misjafnt en flestir
koma fyrr eða síðar upp um sig þegar
þeim mistekst að leika venjulega mann-
eskju. Þær eru eins og púsl sem ekki
passa inn í heildarmyndina, þjást af rót-
leysi sem er m.a. undirstrikað í Elín,
ýmislegt með rótlausu plöntunni Til-
landsiu sem birtist af og til.
Í skrifum sínum hefur Kristín
löngum rannsakað hvernig áföll berast
milli kynslóða og hvernig áfalla streitu-
röskun prentast í raun inn í DNA okkar
og ferðast þannig áfram nema víta-
hringurinn sé rofinn – en slíkt er auð-
vitað hægara sagt en gert. Ef manneskja
verður fyrir áfalli og vinnur ekki
almenni lega úr því situr það áfram í lík-
ama og sál og næst þegar eitthvað
kemur uppá, jafnvel eitthvað smávægi-
legt, fara líkaminn og heilinn beint í
fyrra áfallið – á þann hátt upplifir
manneskjan í sífellu sama áfallið aftur
og aftur ef ekki tekst að vinna úr því.
Þannig sýnir Kristín okkur oft mann-
eskjur sem virðast vera skrímsli og
afhjúpar svo áfallið eða áföllin sem
sköpuðu ómennskuna. Í leikriti hennar
og Karíar Grétudóttur frá 2013, Karma
fyrir fugla, er unnið með áföll sem
ganga milli kynslóða eins og skelfilegur
arfgengur sjúkdómur og í skáldsögunni
Hvítfeld (2012) er það nánast stef. Þar
vinnur höfundur gagngert með brotna
fjölskyldu sem á yfirborðinu lítur út
fyrir að vera tiltölulega venjuleg en flett-
ir svo ysta laginu af, og með því að grafa
sig til baka í gegnum kynslóðirnar fást
svör við knýjandi spurningum um per-
sónurnar eins og þær eru í dag. Hlutirn-
ir eru sjaldnast eins og þeir sýnast hjá
Kristínu og oft er manneskjan sem sýn-
ist heilbrigð í raun helsjúk og svarti
sauðurinn heilli þegar nánar er að gáð.
Elín, ýmislegt er í aðra röndina minn-
ingabók eða frásögn fullorðinnar konu,
Elínar, sem er leikgervahönnuður, en
um leið er þetta saga kornunga leik-
skáldsins Ellenar. Leiðir þeirra liggja
saman þegar sú fyrrnefnda tekur að sér
að sjá um leikgervi í sýningu á leikriti
eftir þá síðarnefndu. Áhugi Elínar á
Ellen virðist sérkennilega mikill enda
kemur í ljós að Elín þekkti föður henn-
ar, hinn fræga rithöfund Álf Finnsson,
og hafði þar að auki hitt stúlkuna undir
erfiðum kringumstæðum mörgum
árum áður. Þessar tvær konur virðast í
U m s a g n i r u m b æ k u r