Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Síða 22
Stefán Máni
tengist henni sjaldan eða aldrei; þjáning, dauði, skelfing og persónuleg
völd er það sem svalar í svip óslökkvandi þorsta hinnar hreinræktuðu
illsku, sem gegnum tíðina hefur skotið rótum í hjörtum kvalara ýmis-
konar, allt frá vesalingum með sjálfspíslarhvöt til alræmdra íjöldamorð-
ingja og einræðisherra, sem eru í raun og veru líkari vélum en mann-
eskjum að innri gerð og hugsa og hegða sér samkvæmt því.
Á öndverðum dögum Guðbrands biskups Þorlákssonar bjó maður að
nafni Björn ásamt konu sinni Steinunni á bænum Öxl í Breiðuvíkur-
hreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi. Hann var kallaður Axlar-Björn og
vann sér það til frægðar að myrða vel á annan tug sofandi ferðalanga sem
í vondum veðrum og á dimmum nóttum höfðu beðist gistingar á
bænum. Glæpi þessa framdi Björn með dyggri aðstoð eiginkonu sinnar,
og sökktu þau hjónin líkum ferðalanganna í tjörn þar nærri en gerðu
eigur þeirra að sínum.
Fyrir utan það að Björn var kvæntur maður þá minnir blóði drifin
saga hans og umgjörð hennar á kvikmyndina Psycho (1960) eftir meist-
ara Hitchcock, en í forgrunni hennar er brjálæðingurinn Norman Bates
sem rekur mótel við gamlan þjóðveg og myrðir þá fáu gesti sem skrá sig
þar inn og sökkvir síðan líkunum (í bifreiðum viðkomandi) í nálæga
mýri. Fyrirmynd Normans Bates var Ed nokkur Gein, „náætan frá
Wisconsin“, sem varð í lifanda lífi holdgervingur hins norður-ameríska
raðmorðingja. Gein var fundinn ósakhæfur og dæmdur til ævilangrar
vistar á geðspítala effir að hafa játað á sig kaldrifjuð morð, grafarrán og
svívirðingar á líkum fórnarlamba sinna á 6. áratug 20. aldar, en Axlar-
Björn og Steinunn voru dæmd til dauða og tekin af lífi árið 1596.
Lífið hermir eftir listinni og öfugt, tíminn bítur í skottið á sér og
illskan - eins og ástin - er ávallt viðstödd, í nútíð og fortíð, í lífi og listum.
Fyrirbærin tvö, hugur glæpamannsins og hin hreinræktaða illska, eru
eldsneytið sem drífur skáldsöguna Svartur á leik áfram, en umhverfið
sem hún hrærist í er Reykjavík nútímans og þá fyrst og fremst sú dimma
og hættulega Reykjavík sem birtist okkur í fjölmiðlum nánast vikulega,
þar sem handrukkarar halda heilu fjölskyldunum í heljargreipum, þar
sem rán, morðhótanir og ofbeldisverk eru daglegt brauð, þar sem fólk
hverfur sporlaust og miskunnarlausir eiturlyfjasalar ráða ríkjum, þar sem
smástelpur klæðast eins og klámstjörnur og kynlíf er orðið að andlits- og
kærleikslausri athöfn, að vinargreiða, atvinnu, gjaldmiðli, þar sem allt má
og ekkert er bannað, þar sem sá sterkari hefur alltaf rétt fyrir sér og hinn
veiki er beygður í duftið.
Svartur á leik er samt uppdiktað bókmenntaverk - það sem ég kýs að
kalla fagurfræðilega glæpasögu - þó að efniviðurinn sé að stórum hluta
20
TMM 2004 • 3