Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Síða 110
Bökmenntir
Sveitabörn léku sér við burgeisabörn og verkamannabörn og menntamannabörn og
fisksalabörn - börn af öllum stigum kynntust í fyrsta sinn í ellefu hundruð ára sögu
þjóðarinnar, fengu að leika sér saman í fyrsta - og eina - sinn. Þarna príluðu stéttirnar
saman upp og niður stillansa nýrra tíma svo að burgeisabörnin enduðu sum hver sem
sjómenn, verkamannabörnin sem iðnjöfrar og sveitabörnin sem landeyður, iðnaðar-
menn, skáld eða sjómenn. (69—70)
En nú er þessi byggð horfin í gróðurþykkni og börn frumbýlinganna komin á
miðjan aldur.
I forgrunni frásagnarinnar er ein fjölskylda, þrjár kynslóðir, og fulltrúar
tveggja þeirra eldri eiga sameiginlegt að hafa tengst og tilheyrt íslenskri vinstri-
hreyfingu. Elstur er Einar Egilsen, gamli sósíalistaforinginn sem „bilaði aldrei“,
„hélt fast í heimsmynd sína og endurskoðaði aldrei neitt“, en hefur nú misst
heilsuna og er aðeins „sorg á stól“ í augum barnabarna sinna. Sonur hans Baldur
hefur litið á það sem hlutverk sitt að sætta hugsjónir föður síns við hugmyndir
og hugsjónir nýs tíma og komst ungur í fremstu röð innan Hreyfingarinnar en
var þá snögglega bolað burtu. Baldur er fæddur um 1950 þannig að þroskaár
hans falla saman við þá kynslóð sem kennd er við 1968, en einhvern veginn
stendur hann álengdar af því hann hefur aldrei „gefist vitleysunni á vald, aldrei
gengið inn um dyrnar. Hann hafði misst af undrum sinnar kynslóðar og var ekki
fulltrúi neins“ (100). Þegar hér er komið er Baldur sestur í helgan stein, ræktar
sinn séríslenska garð og fæst við að skrifa glæpasögur og mála naífískar myndir
undir öðru nafni en sínu eigin. í forgrunni er einnig Geiri vinur hans og sam-
herji, sveitamaður sem hefur einhvern veginn dagað uppi í heimi þeirra hug-
sjóna sem hann ánetjaðist ungur, ennfremur Katrín kona Baldurs og börn þeirra
tvö, Sunneva og Sigurlinni. Hugrenningum og tilvistarkreppu þeirra, einkum
stúlkunnar, er lýst af næmleika.
Baldur og Geiri eru svipir frá liðnum tíma. Höfundur hnýtir skemmtilegar
fléttur í kringum þá á þessum sólarhring og lýsing þeirra er skýrt dregin, meðal
annars með því að hún fléttast saman við minni úr þeim menningarheimi ljóða,
söngva, mynda og sagna sem er snar þáttur í þessum persónum og tímanum
meðan „Hreyfingin“ var og hét:
Hann er staddur á víðavangi, það er víðavangsþögn. Og er litla ögn innskeifur í kjarv-
ölskum afdal á Austurlandi; logandi haustgróður og hágnæf fjöll; vatn á heiði; vættur
í mosa og andlit í bergi, bátur sem siglir hægt eftir loftinu þvert. (34)
Innlifun er ein helsta aðferðin til geðfelldrar persónusköpunar, stundum sam-
samandi, stundum írónísk:
Hann gengur í logni ljósrar nætur. /.../ Regnið hefur engin áhrif á óaðfinnanleika
hans. Áfengið hefur ekki gert annað en að hvessa kinnbein hans. (31)
Þegar eina raunverulega illmennið birtist á sviðinu er gagnstæðum aðferðum
beitt: fjarlægð og framandgervingu:
108
TMM 2004 • 3