Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Blaðsíða 43
Líf að þessu loknu
hefði tekið eftir því hvernig svipir dauðadæmdu mannanna á ljósmynd-
unum breytast smám saman á leiðinni. Án þess að við það yrði ráðið
leiddist talið að mönnum sem höfðu verið hálshöggnir af andspyrnuhóp-
um í frak undanfarna mánuði. Meðal þeirra hálshöggnu voru Banda-
ríkjamennirnir Jack Hensley og Eugene Armstrong, Tyrkinn Maher
Kemal og heimamaðurinn Lukman Husein. Öllum var þeim gefið að
sök að hafa unnið fyrir bandaríska innrásarliðið. Myndbandsupptökur
af aftökunum höfðu verið gerðar aðgengilegar á Netinu og brot úr þeim
sýnd á sjónvarpsstöðvum út um allan heim. Ég hafði lesið um þessar
upptökur en ekki skoðað þær, Massimiliano sagðist hafa horft á aðdrag-
anda einnar aftökunnar og síðan heyrt hljóðin. Og eftir langa þögn
bætti hann við: „Nýlega dreymdi mig reyndar að verið væri að háls-
höggva mig. Það var óþægilegt að finna höfuðið segja skilið við lík-
amann.“ Þegar ég kom aftur heim á hótelið átti ég bágt með að sofna og
endurlas því grein Gunnars F. Guðmundssonar sem ég hafði haft með
mér að heiman. Þar kemur fram að kaþólski biskupinn, Jóhannes Gunn-
arsson, hafði ekki mótmælt brottnámi meintra beina Jóns Arasonar og
sona hans úr Kristskirkju árið 1950, enda sagðist hann sjálfur í bréfi til
þjóðminjavarðar hafa verið alla tíð mótfallinn því að þau væru varðveitt
þar. Hann hefði látið það óátalið með því skilyrði „að umrædd bein yrðu
ekki höfð til sýnis í kirkjunni, að engin sérstök virðing yrði sýnd þeim,
og að þau yrðu geymd hjá oss fyrst um sinn, svo framarlega, sem enginn
styr stæði um þau, hvorki stjórnmálalegs né trúarlegs eðlis, enda væri
engin viðurkenning frá mér, hvorki persónulega né fyrir hönd kirkjunn-
ar fólgin í því að geyma þau“.35 Líkt og Gunnar rekur var málinu þó ekki
lokið af hálfu Guðbrands Jónssonar því um og eftir 1950 reyndi hann að
fá páfa til að viðurkenna Jón biskup Arason sem píslarvott. Sú tilraun
bar ekki tilætlaðan árangur enda gerð í óþökk kaþólskra yfirvalda hér á
landi. Gunnar lætur að því liggja að afstaða Jóhannesar biskups hafi að
nokkru leyti markast af „pólitískum“ ástæðum; búast hefði mátt við „að
opinber yfirlýsing kaþólsku kirkjunnar um píslarvætti Jóns gæti valdið
stjórnmálalegum og trúarlegum ágreiningi“. Jón biskup Arason hafi í
margra augum verið „íslensk þjóðhetja“ og því gat verið varhugavert fyr-
ir kaþólska söfnuðinn að ætla að gera hann að sinni einkaeign.36 Gunn-
ar leiðir hins vegar rök að því að barátta Jóns Arasonar gegn nýjum sið
og dönsku valdi hafi mótast í veigamiklum atriðum af boðskap sem
finna má í bréfi sem Páll páfi III sendi Jóni árið 1549 þar sem hann hvet-
ur biskup til að halda hjörð sinni saman og berjast til þrautar. Og Gunn-
ar lýkur grein sinni á þessum orðum: „Jón biskup Arason reyndi að
halda hjörðinni saman fyrir hvatningarorð páfans og fórnaði til þess lífi
TMM 2005 ■ 3
41