Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Blaðsíða 87
Myndlist
III.
Fyrir ekki nema tíu eða fimmtán árum hefði verið ógjörningur að halda
slíka myndlistarhátíð á íslandi, þó ekki væri nema fyrir það að þá var ekki
til að dreifa nema litlum hluta þess sýningarrýmis sem til þarf. Allir innviðir
myndlistarlífsins á íslandi hafa styrkst mjög á skömmum tíma, nú eru söfn og
sýningarsalir úti um allt og álitlegur hópur fagmanna sem við það starfar að
setja upp og reka sýningar, skipuleggja þær, fjármagna og kynna. Enn meiru
varðar þó auðvitað að hér þrífast ótrúlega margir listamenn sem sjálfir eru
farnir að starfa á alþjóðlegum vettvangi og skilja vel það samhengi sem verk
þeirra ganga inní.
Allt þetta er þó til lítils ef við höfum ekkert fram að færa. Það er erfitt að vera
lítil þjóð á afskekktri eyju og horfa útí heim þar sem allt virðist nýrra og stór-
brotnara heldur en heima. „Af hverju getum við ekki gert svona?“ spyrjum við
þá kannski og reynum svo fyrir okkur með að gera eins, í von um að eiga uppá
pallborðið í stórborgunum. Hetjurnar verða þá þeir sem geta farið til útlanda
og gert eins og heimamenn þar eða hinir sem innleiða nýja siði frá útlöndum
hér heima. Um hitt er þá óvíst hvort þeir hafi sjálfir lagt nokkuð til málanna.
Þegar myndlistarhátíðin var opnuð í vor og við sem um myndlist sýslum á
íslandi - listamenn, safnafólk, gagnrýnendur og aðrir - stóðum innan um alla
erlendu gestina vorum við að rifna af stolti. „Þetta gátum við þá,“ hugsuðum
við og trúðum því þó varla sjálf. Sýningarnar voru fullt eins góðar og sambæri-
legar sýningar erlendis. Meðal opnunargesta voru líka margir sömu útlending-
arnir og maður sér á opnunum í London og París og Róm. Blaðamenn voru
komnir frá flestum helstu tímaritum og stórblöðum sem um myndlist fjalla og
allir virtust hæstánægðir með uppákomuna.
Þó er þegar betur er að gáð svo margt sem hefði mátt betur fara og margt
sem má gagnrýna. Það er brýnt að taka á öllum spurningum sem vakna um
framkvæmd og skipulag svona viðburða og draga ekkert undan. Til dæmis
má spyrja hvort það sé í raun hentugt að Listahátíð í Reykjavík stýri svona
myndlistarhátíð þegar ábyrgð á framkvæmdinni er mestmegnis lögð á söfnin
sem hýsa sýningarnar, meira að segja endanleg ábyrgð á kostnaðinum sem þau
ráða þó ekki öllu um þar sem sýningarstjórnin er ekki í þeirra höndum. Var
rétt að gefa út dýra sýningarskrá sem í er enginn texti til glöggvunar og kom
ekki út fyrr en á miðju sumri? Var rétt að ráða fyrirtæki í Ameríku til að kynna
sýninguna erlendis í stað þess að verja meiri vinnu og fjármunum í fræðslu og
leiðsögn hér heima? Umfram allt þurfum við að spyrja hvað hátíðinni er ætlað
að leggja til málanna.
Eins ég nefndi áðan fjölgar alþjóðlegum stórsýningum á myndlist ár frá
ári og við þær hafa líka bæst gríðarmiklar myndlistarmessur, eins konar
vörusýningar á myndlist þar sem gallerí alls staðar að leigja sér bása til að
kynna í sína myndlistarmenn. Þessar messur eru ekki síður vel sóttar en tví-
æringarnir allir og samsýningarnar. Myndlistarmenn, safnarar, safnstjórar,
sýningarstjórar og blaðamenn flykkjast að og ganga flestir hratt gegnum
TMM 2005 • 3
85