Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Blaðsíða 122
Bókmenntir
(bls. 111), en bara í tengslum við orðalagsatriði. Lesandi fréttir ekki að Jón Yngvi
notar þó, ólíkt öðrum, Byronsritgerðina til skilnings á Grími, og hefur einmitt
þá sýn á skáldskap hans sem mér virðist rannsókn Kristjáns styðja.
8 Gagnrýni Gríms á fastar forskriftir í bókmenntum gefur Kristjáni þannig tilefni
til þess (bls. 98) að vísa háðslega til hinnar gamalkunnu umræðu um braglýti
á ljóðum Gríms. Þó hefur Kristján nánast í sömu andránni (bls. 97-98) rakið
þá skoðun Gríms, að skáldið eigi að „laga sig að ríkjandi smekk eða reyna að
breyta honum og berjast fyrir sinni tjáningu". Nú munu það helst talin braglýti
hjá Grími að hann brjóti gegn reglunum um hvar stuðlar megi standa í langri
ljóðlínu. En hann brýtur þær ekki oft, og virðist á stundum leggja töluvert á sig
(og lesendur sína) í þvingaðri orðaröð til að fylgja þeim. Verður þá varla sagt að
hann hafi barist markvisst fyrir breyttum smekk í þessu efni.
9 Ég er ekki bókmenntafræðingur og dæmi ekki um verk Kristjáns sem fagmaður
á því sviði. Ekki kunni ég heldur mikið fyrirfram í þeirri hugmyndasögu sem
mest kemur við sögu hjá Kristjáni og gerir bók hans einmitt svo fróðlega fyrir
minn smekk. Fáeinum almennum þekkingaratriðum, svo og merkingu danskra
hugtaka, hef ég flett upp í leit að villum, en jafnan gripið í tómt.
10 Því væri líka rétt að Stúdía gerði, eins og Skírnir, öllu ríkari kröfur um
fræðimannleg frágangsatriði en virðast gerðar til háskólaritgerða, enda
hægara fyrir aðra en höfund sjálfan að greina brotalamir í því efni.
Hér hefur einfaldur prófarkalestur verið þokkalega ræktur. Af sýnilegum
prentvillum sá ég bara smámuni eins og orðabil of eða van, mislöng tengistrik
og „é“ fyrir „é“, en af ógagnsæjum prentvillum rakst ég á eitt skakkt blaðsíðutal
í nafnaskrá. Meiri misbrestur er á gagnrýnum samræmingarlestri. Strax í efnis-
yfirliti er tvenns konar kerfi á undirfyrirsögnum; í bókinni sjálfri er svo hvor-
ugu fylgt og ekki fullt samræmi þar heldur. Þá er ofrausn að höfundur undirriti
bæði formálann (bls. 12) og ritgerðina sjálfa (bls. 240). Þó-nokkur mannanöfn
eru misjafnlega rituð í persónuskrá (bls. 253-265) og nafnaskrá (bls. 267-274)
eða ekki stafrófsraðað á sama hátt (Ali Pasha t.d. á A eða P og annað slíkt). Ekki
er einhlítt að gefið sé upp blaðsíðutal þar sem við á í tilvísunum og heimildaskrá.
í heimildaskránni vantar nokkuð á fast skipulag, og er einna mest óreiðan á því
hvort og hvernig frumútgáfu- eða ritunarár texta er tilgreint, ásamt útgáfuári
eða jafnvel í stað þess. Ekki er alltaf samræmi milli tilvísana og heimildaskrár,
og er grófasta dæmið að kalla það í tilvísun (bls. 77) „seðlasafn Orðabókar
háskólans“ sem í heimildaskránni ber ekki annað heiti en „http://lexis.hi.is/cgi-
bin/ritmal/leitord.cgi“ - slóð sem verkar svo ekki einu sinni nema bætt sé við:
„?adg=innsl“.
120
TMM 2005 • 3