Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Blaðsíða 10
Moldin syngur ekki alltaf
segðu mér annað. Við hvað á einstaklingurinn að miða gildi lífs síns. Þú
getur ekki sagt mér það. Enginn getur það. Ef þú hefðir vitað það, já ef
menn vissu það með óbifanlegri vissu, þá geng ég út frá að menn væru
almennt hamingjusamir. En hvað erum við að tala um? Ég hef ekkert í
það að verða frægur maður. Það eina sem ég gæti væri að reyna það. Og
hvað gæti ég þá í raun og veru reynt? Mundu það að ég er ekki lengur 15
ára unglingur sem er hraustur og að öllu vel upplagður til þess að læra
skólalærdóm. Ég er bráðum 25 ára og með bilaða heilsu. [...] - En því
erum við nú að segja allt þetta? Vegna þess að ég hef ort nokkur kvæði,
og þau eru ekki verr sögð heldur en hjá sumum öðrum, en auðvitað um
alveg sama efni og aðrir eru búnir að góla um hundrað sinnum áður.
Og svo ert þú, elsku Ragni mín, að láta þennan Kristin, þennan vísa
Kristin, lesa út úr þeim einhverja möguleika. - Nei góða, við skulum ekki
tala um þetta í alvöru. - Hér verð ég að vera - það er alveg ákveðið. Ef ég
yrki ennþá eitthvað þá færð þú það. Því ég á engin kvæði eftir mig. [...]
Nei ég kem ekki ofaneftir í bráð. Ég kem einhverntíma seinna í vetur,
á einmánuði seint t.d. - ef ekki verða mislingar, ég má ekki fá mislinga.
En ef ég kem þá máttu ekki fara að siga neinum menntamanni á mig.
Ég hef ekkert í það að tala við þá. Og svo er ég bundinn í báða skó. - Það
sem úr mér getur orðið verður hér að gerast. - Auðvitað verður það
aldrei neitt, en það gæti alveg eins skeð, þó að ég ætti heima á Kirkjubóli,
eins og þó að ég ætti hvergi heima. Þetta segi ég í alvöru og svo segi ég
ekki meira um það.
Guðmundur hlýddi líklega kalli skömmu seinna en fundur þeirra Kristins virð-
ist hafa farið út um þúfur vegna veikinda Kristins. Altént segir Guðmundur í
næsta bréfi: „Hvað er um Kristin vin þinn? Hvernig líður honum? Skaðlegt fyrir
mig hvað það dregst að lækna hann. Nei góða vertu nú ekki vond. Mér geðjast
mjög vel að honum, og mér þætti gaman að kynnast honum. En ég gat það ekki
í vetur eins og þú líka vissir. En ég fellst ekki á þann misskilning ykkar að nokk-
urs sé um það vert að gera mig að galandi hana.“
Guðmundur getur ekki gleymt því sem Ragnheiður hefur gert og skrifar enn
um það skömmu fyrir jól:
Heima 2. des. 1929
Elsku Ragni mín. Fyrirgefðu hvað það er langt síðan ég hef skrifað þér.
- Þú segir náttúrlega að það sé ekkert að fyrirgefa, allt sé þetta ósköp
eðlilegt, ég hafi verið upptekinn af kærustunni etc. etc. Nei, svo fínt var
það ekki. Eins og þú getur nærri hef ég hvað eftir annað ætlað að yrkja
þér bréf, - en æ, ég geri það bráðum, geri það bráðum. Er þetta fyrning
8
TMM 2005 ■ 3