Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Blaðsíða 95
Bókmenntir
Eins og Klukkan í turninum endar frumsaminn hluti bókarinnar á dauðaljóði.
„Þrír englar (Hugleiðing um dauðans vísan tíma)“ heitir það og sameinar á
makalausan hátt að vera trúarlegt ljóð, hátíðlegt og upphafið, en líka óvænt og
fyndið. Þeir sem ekki hafa bókina við höndina en eiga 1. hefti TMM frá 2004
geta rifjað það upp undir eins. Englarnir koma úr þrennum trúarbrögðum,
kristni, grískri goðatrú og þeirri norrænu, og ég segi fyrir mig að ef ég mætti
velja þá veldi ég þann síðasttalda, Hermóð, bróður Baldurs, sem „stendur hjá
hestunum / líkur sonum mínum og bræðrum“. Tilfinningin segir mér að Vil-
borg sé sama sinnis; hann er æðrulaus eins og hún;
„Það er ekkert að óttast," segir hann rólega,
„við förum niður eftir og yfir á brúnni.“
Fiskar hafa enga rödd endar á þremur ljóðum Sylviu Plath úr ljóðabókinni Ariel
sem gefin var út árið 1965 að henni látinni. Sylvia og Vilborg eru ekki lík ljóðskáld;
myndmál Sylvíu er mun flóknara og myrkara enda var lífssýn hennar myrk, ekki
síst þegar hún orti þessi ljóð svo skömmu áður en hún gaf sig dauðanum endanlega
á vald. í ljóðunum sem Vilborg hefur valið yrkir Sylvia um eiturlyf, myrkan hugar-
heim og óhugnanlegan dauða. Hún er ekki svo heppin að fá þrjá yndislega engla til
að fylgja sér yfír um eins og þýðandi hennar. En þrátt fyrir ólíkt geðslag og ólíka
reynslu fínnst mér Vilborg lifa sig á sannfærandi hátt inn í hugarheim skáldsins og
skila sterkum myndunum af dirfsku. Það er nautn að bera saman textana, línu fyrir
línu, en til þess er ekki rúm hér. Eitt örlítið dæmi verður að nægja.
í „Poppies in July“ lýsir Sylvia ópíumjurtinni valmúa og vímuefninu sem unn-
ið er úr henni. Hún kallar jurtina „little hell flames“ (litlu vítisloga) og segir svo:
„And it exhausts me to watch you / Flickering like that, wrinkly and clear red, like
the skin of a mouth. // A mouth just bloodied“. Hallberg Hallmundsson notar orðið
draumsóleyjar um jurtina í Ariel og önnur Ijóð (1996) og segir: „Og það dasar mig
að horfa á ykkur / flöktandi svona, hrukkóttar og hárauðar eins og skinn á vörum.
// Vörum nýskeð blóðguðum.“ Sverrir Hólmarsson notar eins og Vilborg orðið val-
múa um jurtina í sinni þýðingu á ljóðinu (Ariel, einkaútgáfa þýðanda 1995) og seg-
ir: „Og ég verð uppgefin af að horfa á ykkur / flökta svona, hrukkaða, skærrauða,
eins og húð í koki. / Nýblóðguðu koki.“ Hjá Vilborgu eru þessar línur svona:
Og ég örmagnast af að horfa á ykkur
svona flöktandi, hrukkótta og eldrauða, eins og slímhúð i munni.
Nýblóðguðum munni.
Slímhúðin í munninum er alveg eins og Sylvia hafi sjálf sett hana þarna.
Sylvia Plath er gríðarlega erfitt skáld í sínum myrkustu ljóðum, andsetin
og miskunnarlaus gagnvart sjálfri sér og öðrum. En mér finnst Vilborg skilja
ljóðin hennar og leyfa okkur að skilja þau með sér. Það er ekki lítið afrek og
óskandi að hún láti hér ekki staðar numið. Þó ekki á kostnað eigin ljóða.
TMM 2005 • 3
93