Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Blaðsíða 85
Myndlist
allan heim eftir að hann lést árið 1998. Umsjón með hinum sýningunum hafði
Jessica Morgan sem nú vinnur við Tate Modern-listasafnið í London en stýrði
áður sýningum við Nútímalistastofnunina (ICA) í Boston. Jessica var reyndar
titluð sýningarstjóri alls „myndlistarþáttar Listahátíðar“ en í ljósi þess hve
umfangsmiklar sýningarnar á verkum Dieters voru mun það nokkuð ofmælt.
Það var sérstaklega gaman að sjá loksins verk Dieters á sómasamlegri
sýningu í Reykjavík og löngu tímabært að fslendingar fengju að kynnast ævi-
starfi þessa manns sem bjó hér norðurfrá með okkur þótt sárafáir nema þeir
sem best þekktu hann hefðu nokkra hugmynd um hverrar virðingar hann naut
úti í hinum stóra heimi eða hver áhrif hann átti eftir að hafa á samtímalistina.
Um áhrif hans á íslenska samtímalist er þó engum blöðum að fletta og má helst
líkja við það sem Laxness áorkaði fyrir rithöfunda okkar, að kenna þeim að
treysta á sitt en vera samt heimsborgarar. Flest ef ekki nær öll verkin sem sýnd
voru hafa sést nýlega á stórum yfirlitssýningum erlendis, í Nútímalistasafninu
í New York og víðar, svo ekki taldist sýningin til nýmæla, svona alþjóðlega séð,
en þeim mun mikilvægari var hún fyrir okkur heimafólkið. Með henni er lok-
að einum hringnum í samskiptum okkar við þennan mikla listamann.
Dieter varð allt að list enda hljómar uppskrift hans að myndlist svona:
Takið hlut og setjið á annan hlut
Takið hlut og setjið hann á hina 2 hlutina
Takið hlut og setjið hann á hina 3 hlutina
Takið hlut og setjið hann á hina 4 hlutina
Takið hlut og setjið hann á hina 5 hlutina
Takið hlut og setjið hann á hina 6 hlutina
Takið hlut og setjið hann á hina 7 hlutina
seljið hvenær sem er
Það er þó ekki heiglum hent að fylgja þessum fyrirmælum svo vel fari. Hjá Diet-
er varð að lokum enginn greinarmunur gerður á lífi og list. Hvert handtak, hver
pensilstroka og hvert orð urðu liður í sama sköpunarverkinu og var þannig lista-
verk útaf fyrir sig, en það kostar gríðarlega vinnu, einbeitingu og íhugun að fella
allt saman í eina frumlega hugsun. Þetta verður þeim mun ljósara þegar maður
skoðar verkþar sem listamaðurinn hefur tileinkað sér formúluna en áttar sig ekki
á því hvað þarf til að ljá henni líf og inntak. Það er eins og að smíða sér atgeir og
halda sig fyrir það jafnoka Gunnars á Hlíðarenda. Töluvert af myndlist samtím-
ans er þessu marki brennt, nú ekki síður en á hverjum öðrum tíma, en kannski
enn frekar nú þegar engar einhlítar reglur gilda um handbragð og efnivið og
erfiðara er því að greina á yfirborði verka hvað það er sem gerir þau merkileg.
Post-avant-garde er eitt af þeim óskiljanlegu orðum sem notað hefur verið um
list okkar tíma og lýsir kannski best því hve blint við róum nú í listinni.
TMM 2005 • 3
83