Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Blaðsíða 105
Bókmenntir
Jón Yngvi Jóhannsson
Saga um tryggð, vináttu og svik
Sindri Freysson: Flóttinn. JPV útgáfa 2004.
Á síðasta ári tók ég þátt í námsstefnu við Kaupmannahafnarháskóla um
Norrænar bókmenntir, nýlendustefnu og eftirköst hennar. Eftirminnilegasta
fyrirlestur námskeiðsins flutti ung indversk kona, Leela Gandhi að nafni,
prófessor við La Trobe háskólann í Melbourne. Fyrirlesturinn byrjaði á kunn-
uglegum nótum. Hún rakti sögu eftirlendufræða frá upphafi til samtímans,
áhrif marxisma, strúktúralisma og ekki síst póstmódernisma og póststrúkt-
úralisma. Það var ekki fyrr en undir lok fyrirlestrarins að ég fór verulega að
sperra eyrun. Gandhi lauk fyrirlestrinum með því að velta fyrir sér framtíð
eftirlendufræðanna og sjálfsmyndarbaráttu fólks í fyrrum nýlendum. Lykil-
orðin í framtíðinni, sagði hún, verða að vera: gömul gildi eins og gestrisni,
umburðarlyndi og örlæti. Bíddu nú við, hugsaði ég; hvað er þá orðið okkar
starf? Er þetta ekki sá gamli húmanismi sem mér hefur verið innrætt frá fyrstu
háskólaárum að sé uppspretta allrar karllægrar og evrópumiðjaðrar kúgunar
og ekki síst nýlendustefnunnar sjálfrar? Þegar ég spurði fyrirlesarann hvort
það sem hún væri að boða væri ekki bara húmanismi var svarið: kannski, en
það er þá að minnsta kosti pósthúmanískur húmanismi sem við erum að tala
um. Mér dettur þessi fyrirlestur og svar Gandhi oft í hug þegar ég hugsa um
íslenskar skáldsögur í samtímanum.
Ég held nefnilega að í íslenskri skáldsagnagerð undanfarin ár megi sjá svo-
lítið svipað ferli og í fyrirlestri Leelu Gandhi. Ég held að íslenskar skáldsögur
séu í auknum mæli farnar að snúast um einstaklinga og tengslin þeirra á milli,
fremur en frásagnir og skapandi endurvinnslu þeirra. Þetta birtist stundum í
formi sem við getum kallað hefðbundið, jafnvel gamaldags, en höfundarnir
láta sér það í léttu rúmi liggja. Erindi þeirra felst ekki fyrst og fremst í því að
segja sögur sínar á nýjan hátt heldur í því að þeir hafa eitthvað að segja um
hlutskipti mannanna, ekki bara einsemd þeirra, firringu og tilvistarlegan
vanda, heldur það hvernig líf hvers og eins hefur áhrif á líf annarra, hvernig
fólk elskar hvert annað, hjálpar hvert öðru, svíkur hvert annað og steypir hvert
öðru í glötun. Auk þeirrar sögu sem hér er fjallað um mætti nefna þessu til
stuðnings nýjustu skáldsögur höfunda eins og Kristínar Ómarsdóttur, Auðar
Jónsdóttur og Braga Ólafssonar.
Raunar er höfundarverk Sindra Freyssonar fram að þessu óvenjulega skýrt
dæmi um þessa þróun. Fyrsta ljóðabók hans og smásagnasafn voru hámódern-
ísk, hlaðin táknsæi og á stundum næstum abstrakt tilvistarlegum pælingum. I
fyrstu skáldsögu sinni, Augunum í bænum sem kom út árið 1998, fann Sindri
sér nýjan farveg í sálfræðilegu raunsæi og þann þráð spinnur hann áfram í
þessari nýjustu skáldsögu sinni. Þótt Flóttinn sé söguleg skáldsaga og kveiki
TMM 2005 • 3
103