Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Blaðsíða 97
Bókmenntir
úr latneskum söguritum miðalda eða þá forn-frönskum riddarakvæðum
og svo framvegis.
í raun réttri er fráleitt að ætla að fara að verja þá fyrri menn er fræðin
kunnu, þeir eru fullfærir um það sjálfir - einnig post mortem í ritum sínum
- og ekki rétt að draga fjöður yfir það að stundum lágu þeir vel við höggi. Þekk-
ing þeirra á málefnum erlendis á þeim tíma þegar íslendingar fóru að hafa sem
mest not fyrir kálfskinn gat nefnilega verið gloppótt á stundum, og því geta
þeir fælt frá sér lesendur sem átta sig ekki á því að meta ber hvern fræðimann
eftir frammistöðu hans á eigin sérsviði en ekki því sem hann kann að segja þeg-
ar hann álpast út fyrir það. Hver sá sem þekkir eitthvað til miðaldasögu hlýtur
að hrökkva illilega við þegar hann sér á blaði þá kenningu (sem ég efast þó um
að nokkur meiri háttar fræðimaður hafi viðrað) að íslendingar hafi verið svo
langt á undan öllum öðrum Norðurlandabúum á miðöldum að þegar á elleftu
öld hafi verið íslenskur námsmaður við Sorbonne. Er þá hætt við að hann lesi
ekki öllu lengra. En rétt er að láta þeim eftir sem syndlaus er á þessu sviði að
grýta blekbyttum, og ekki er víst að þekking yngri fræðimanna sé heldur alltaf
gloppulaus.
Það er heldur ekki aðalatriðið. Þessir gömlu fræðimenn kunnu nefnilega
eitt sem skiptir meginmáli: Þeir gengu beint að því sem þeir álitu frumlegustu
og mikilvægustu þætti íslenskrar og norrænnar miðaldamenningar og fjöll-
uðu um hin ýmsu fyrirbæri hennar í heild, í sínu innra samhengi. Þegar þeir
lögðu út í einhvern samanburð var það milli fyrirbæra sem voru tvímælalaust
í einhverri snertingu hvert við annað og hlutu að teljast eitthvað annað en
yfirborðsatriði, til dæmis dróttkvæðs ljóðmáls á elstu tímum og myndlistar
samtímans á Norðurlöndunum sjálfum. Þess vegna getur það enn verið meiri
háttar upplifun að lesa ritsmíðar þessara fræðimanna, þótt ýmislegt sem þeir
segja standist kannski ekki lengur í ljósi nýrri rannsókna. En þeir sem leitast
við að snúa baki við þessum „rómantísku“ viðhorfum með því að leita að hlið-
stæðum milli íslands og meginlandsins og túlka íslenska miðaldamenningu út
frá því, eru hins vegar undirorpnir þeirri gagnrýni, sem ég les í þessum skrifuð-
um orðum í Times Literary Supplement,' að þeim hætti til að leiða hjá sér það
sem lesendum hefur löngum þótt merkilegast og athyglisverðast í íslenskum
og norrænum miðaldabókmenntum, og það sem jafnframt hefur haft mest
áhrif. Sömuleiðis að þeir bindi sig við yfirborðsatriði, eins og orðanna bókstaf-
lega hljóðan í málsháttum en láti sjálfa merkingu þeirra, sem getur verið harla
breytileg eftir samhenginu, lönd og leið.
Þetta vekur spurningu sem ég hef stundum velt fyrir mér. Ef íslensk mið-
aldamenning er fyrst og fremst angi út úr vestrænni menningu þess tíma,
byggð á venjulegum vestrænum skólalærdómi og almennri andlegri hefð
meginlandsins, hvernig stendur þá á því að ávextir hennar, bókmenntir af
margvíslegu tagi, eru erlendum miðaldafræðingum svo gersamlega lokuð bók?
Ætti þeim ekki að koma þessi menning nokkuð kunnuglega fyrir sjónir? Þvert
á móti er það mín reynsla að milli erlendra miðaldafræða, þeirra sem fjalla
um Frakkland, England, Þýskaland o.s.frv. á miðöldum, og svo norrænna
TMM 2005 • 3
95