Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Blaðsíða 110
Bókmenntir
í síldinni fyrsta sumarið og móðirin geymir launin, raðar aurunum í stafla
á kvöldin og engu má eyða svo hægt verði að ná saman endum um veturinn.
Við baráttuna við fátæktina bætist svo baráttan við veðrið, og áhrifaríkar eru
lýsingarnar á frostavetrinum mikla árið 1918 þegar hafís lá upp að ströndum
Norðurlands langt fram á sumar.
Meðan eldri börnin vinna úti sér yngsta systirin Karitas um heimilið, þvær,
eldar og lítur eftir litla bróður sínum Pétri. Karitas hefur munninn fyrir neðan
nefið og reynist búa yfir miklum fortölumætti þegar kemur að því að tala við
ráðamenn þorpsins, og útvegar fjölskyldunni bæði mannsæmandi húsnæði til
að búa í og kol til upphitunar yfir veturinn.
Þegar þessum fyrsta hluta sögunnar lýkur hefur ekkjan komið sonum sínum
í gagnfræðaskóla, elsta dóttirin, Halldóra, er útlærð ljósmóðir, sú næsta, Bjarg-
hildur, er kvennaskólagengin og sú yngsta, Karitas, er á leiðinni í Konunglegu
listaakademíuna í Kaupmannahöfn, kostuð af efnaðri frú í bænum sem hefur
uppgötvað hæfileika hennar. Þegar annar hluti skáldsögunnar hefst hafa lið-
ið fimm ár og Karitas er snúin aftur, útlærð í myndlist, og hyggst setja upp
sýningu á verkum sínum í Reykjavík. En örlögin ætla henni annað hlutverk;
hún fer í síldina á Siglufirði til að vinna sér inn peninga fyrir sýningunni,
kynnist þar „fallegasta manninum á fslandi" og verður ólétt. Og án þess að
hún komi nokkrum vörnum við er hún flutt austur á land þar sem hún verð-
ur að hokra við lítil efni meðan maður hennar, Sigmar, dvelur langdvölum
í öðrum héruðum og á sjónum. Við tekur mikil þrautaganga ungu listakon-
unnar sem verður að lúta í lægra haldi fyrir því hlutverki sem náttúran hefur
ætlað konum. Lýsing Kristínar Marju á hægu en öruggu sálrænu niðurbroti
listakonunnar sem heyr sína glímu þar sem á takast kvenhlutverk og listþrá er
gríðarlega áhrifarík og lýkur þessum hluta á risi sem hlýtur að senda hroll nið-
ur eftir bakinu á hverjum lesanda - og kallast á við upphafsmynd bókarinnar
sem áður er lýst.
Þriðji og síðasti hluti bókarinnar gerist í Öræfasveit þar sem Karitas hefur
verið komið fyrir með tvo syni sína í umsjá góðrar konu. Karitas hefur horft
á eftir einu barni í gröfina og annað fóstrar Bjarghildur systir hennar, hrepp-
stjórafrú í Skagafirði. Eiginmaðurinn er á bak og burt. Þegar þriðji hluti hefst
hafa enn liðið mörg ár og Karitas hefur náð sér aftur á kjöl. En baráttan er síður
en svo að baki og þegar eiginmaðurinn snýr aftur eftir þrettán ára fjarvistir
fer aftur að hitna í kolunum. Hér verður ekki upplýst nánar um sögulok til að
spilla ekki lestraránægju þeirra sem eiga eftir að lesa bókina, enda óvíst hvort
um eiginleg sögulok sé að ræða. Ég fyrir mína parta vona svo sannarlega að
Kristín Marja eigi eftir að skrifa framhald af skáldsögunni; að þetta sé aðeins
fyrsta bindi stórrómansins um Karitas.
Þótt hér hafi verið gefið yfirlit um efni skáldsögunnar er erfitt að koma í orð
í hverju galdur hennar er helst fólginn. Þó má nefna nokkur atriði. 1 fyrsta lagi
slá fáir samtímahöfundar Kristínu Marju við þegar kemur að kvenlýsingum. Það
varð strax ljóst í fyrstu skáldsögu hennar Mávahlátri (1995): unglingsstúlkan
Agga og amma hennar og frænkur, ekki síst sú sem kom frá „Amríku“, Freyja,
108
TMM 2005 • 3