Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Blaðsíða 112
Bókmenntir
Bjarni Bjarnason
Eruð þér Færeyingur?
Eiríkur Örn Norðdahl: Hugsjónadruslan. Mál og menning 2004.
I.
Nú var mál að standa sig. Stunda daður, gott og hollt daður. Kveikja í kvensu
með brennandi augum, heilum bálkesti af augasteinum, snilldarlegum komm-
entum um tímana, kommentum sem gætu breytt heimsskilningi hennar um
alla eilífð.
„Eruði færeyskar?“ spurði ég svo eins og asni. (bls. 35)
Mér þykja þessar línur úr Hugsjónadruslunni eftir Eirík Örn Norðdahl lýsa
bókinni vel. Sögumaðurinn leggur upp með að skilgreina tímana með því að
ætla að skilgreina sjálfan sig. Honum er í mun að standa sig, daðra við lesand-
ann og tæla hann til fylgilags við sig. Hann brennur af metnaði til að afhjúpa
sannleikann um tímana þannig að heimssýn lesandans breytist, og lesandinn
er alveg til í tuskið. En svo, þegar lesandinn hallar bókinni aftur, finnst hon-
um hann ekki hafa verið spurður að öðru en einhverju í ætt við: „Eruð þér
Færeyingur?“ Það er óneitanlega óvæntur vinkill á tilvistarspurninguna fyrir
íslenskan lesanda.
Form þessarar íslensku tilvistarkönnunar er þrískipt. Sögumaðurinn seg-
ir frá með hefðbundnum hætti í þátíð eins og hann sé að rifja upp nýliðna
atburði, en við fáum líka að komast að stjórntækjunum í hugskoti hans í
gegnum dagbókina sem er í nútíð. Ofan á þetta koma tölvupóstar bæði frá
sögumanninum Þrándi og til hans frá öðrum persónum bókarinnar. Tilvistar-
spurningarnar hverfast um sígild fyrirbæri eins og ástina og sannleikann. En
einnig er spáð í hversvegna maður sé ekki meira til.
II.
Þrándur er ungur maður frá ísafirði sem hefur slitið sér út í tveimur vinn-
um til að geta átt náðuga daga í Danmörku með hugsjónadruslunni Maggie,
bandarískri stúlku sem hann kynntist á netinu. Hann siglir af stað með Nor-
rænu og á leiðinni kynnist hann færeyskri stúlku, Anní, sem hann sefur hjá og
ætlar svo að hitta á kaffi Natur í Þórshöfn, en ekki vill betur til en svo að hann
sefur yfir sig um borð og missir af Færeyjum. Sagan leiðist nokkuð út í að bera
saman hina Pólíamorísku Maggie (drusla af hugsjón) og hina náttúrlegu Anní,
og sigrar Anní í þeirri samkeppni með miklum yfirburðum, þó Maggie sé
áhugaverðasta persónan í bókinni. í Kaupmannahöfn hittir Þrándur sukkaðan
vin sinn Billa Duggfrisk sem býr í rússajeppa og hann fer með Þránd í partý
110
TMM 2005 • 3