Náttúrufræðingurinn - 2019, Blaðsíða 84
Náttúrufræðingurinn
156
vel að við gátum gengið beint að þeim eftir hans leiðsögn. Páll
fjallaði í máli og myndum um þessi sumur í bókinni Refirnir
á Hornströndum10 sem kom út árið 1999 og ég skrifaði ritgerð
um atferli refa við greni og leikjahegðun yrðlinga og Hólm-
fríður um fæðuval refa. Grein um refina á Hornströndum
birtist í Náttúrufræðingnum11 og önnur um fuglalífið í Blika.12
Við fórum saman á ráðstefnur og héldum myndasýningar þar
sem við sögðum frá því sem við komumst að í þessum ferðum.
Á hverju sumri eftir þetta fór ég norður á Hornstrandir til
að líta eftir refunum „okkar“. Stundum fór ég með Páli og Ástu
konu hans til að fylgjast með dýrum sem höfðu verið eyrna-
merkt eða fengið hálsbönd með staðsetningarbúnaði (sem
reyndar virkaði misvel). Í huga mér sé ég Pál í Hlöðuvík að
skondrast með stórt loftnet sem hann hélt á lofti og heyrnar-
tól til að hlusta eftir ferðum rebba.
Árið 2002 hófst alþjóðleg rannsókn á orkubúskap og félags-
kerfi refanna í Hornvík undir stjórn tveggja ísraelskra sér-
fræðinga, Elis Geffens og Mikis Cams, prófessora við Háskól-
ann í Tel Aviv. Páll tók þátt í verkefninu ásamt kollegum sínum
og vinum, Anders Angerbjörn prófessor í Stokkhólmsháskóla
og Evu Fuglei við Norsk Polar Institut í Tromsø, og þeim Egg-
erti Gunnarssyni dýralækni á Keldum og Þorleifi Eiríkssyni
hjá Náttúrustofu Vestfjarða. Rannsókn þessi stóð í fimm ár.
Haustið 2001 hóf ég nám til meistaraprófs hjá Páli. Rann-
sóknarefnið var stofnvistfræði hagamúsa og Kjalarnesið varð
minn heimavöllur næstu árin. Meðleiðbeinandi var Arnþór
Garðarsson, prófessor. Mér er minnistætt þegar Páll fór með
mér á fyrstu veiðarnar til að sýna mér hvernig maður örmerkir
litla hagamús, og hvatti mig til að reyna sjálf. Við fórum líka að
haustlagi með pínulítil hálsbönd með senditækjum og settum
á nokkrar mýs. Ég fékk að aðstoða hann við að kryfja refshræ
og hreinsa kjálkabein og leysti hann af meðan hann dvaldist
erlendis í rannsóknarleyfi. Hann treysti mér til að pakka og
flytja allt úr skrifstofunni sinni á Grensásvegi og setja upp
skrifstofu í glænýrri byggingu á háskólasvæðinu, sem fékk
nafnið Askja. Nemendur Páls í námskeiðinu Vistfræði spen-
dýra komu með mér á hagamúsaveiðar nokkur ár í röð og
ég aðstoðaði hann við kennslu í því námskeiði ásamt fleiru.
Hagamúsaverkefnið óx og varð að lokum að doktorsverk-
efni. Samanburðarsvæði var bætt við á Mógilsá, í blönduðum
birkiskógi, og þriðji leiðbeinandinn bættist við, Rolf A. Ims,
prófessor við Háskólann í Tromsø. Ég hélt til Tromsø í ágúst
2006 og var um veturinn gestanemandi hjá Rolf og teymi
hans. Þegar ég dvaldist í Tromsø var Páli boðið þangað til
að halda erindi og taka þátt í vinnufundi. Það var eiginlega
ekki fyrr en þá sem ég áttaði mig á því hversu virtur og vel
þekktur hann var í vísindaheiminum. Hann kynnti mig fyrir
erlendum kollegum sínum í refafræðum og bauð mér síðar
með á alþjóðlega ráðstefnu um tegundina, í Svíþjóð árið 2009.
Þar var ákveðið að næsta ráðstefna yrði haldin á Íslandi.
Í apríl 2005 var Páll beðinn að halda erindi á ferðamálaráð-
stefnu á Hömrum á Ísafirði en hann komst ekki frá á þeim tíma
og bað mig að fara í sinn stað. Við undirbjuggum erindið saman
– þar var lagt til að Vestfirðingar gerðu tófuna að einkennisdýri
sínu og settu á stofn fræðasetur um hana. Erindið vakti
nokkra athygli og hugmyndin hlaut strax góðan hljómgrunn,
sem gaf tilefni til að ætla að hægt yrði að hrinda verkefninu
í framkvæmd. Ekki varð þó af framkvæmdum fyrsta kastið.
Þrátt fyrir annir við nám og vettvangsvinnu blundaði í
mér ákveðinn áhugi fyrir þessu verkefni. Vorið 2006 fékk ég
fyrir tilviljun upplýsingar um Eyrardalsbæinn, gamalt ónýtt
hús í Súðavík. Við hjónin fórum og skoðuðum húsið og þrátt
fyrir bágt ástand urðum við algerlega heilluð, bæði af húsinu
sjálfu og staðnum. Ómar Már Jónsson, þáverandi sveitastjóri,
handsalaði svo samkomulag seinna það sumar um að hér yrði
melrakkasetur sett á laggirnar. Stofnfundur Melrakkaseturs
Íslands ehf. var síðan haldinn í félagsheimilinu 15. september
2007 og fimm manna stjórn kosin. Þrátt fyrir bankahrun um
haustið og tap fjármagns til endurbyggingar Eyrardalsbæjar
tókst að standa við upphaflega áætlun og var Melrakkasetrið
opnað í júní 2010 með pompi og prakt. Þar sem hugmyndin
kom upphaflega frá Páli þótti tilvalið að fá hann til að gerast
verndari Melrakkasetursins og hélt hann erindi við opnunina.
Á opnunarhátíðina kom auk fjölda annarra gesta kollegi hans
og vinur, Anders Angerbjörn frá Stokkhólmsháskóla, ásamt
nemendum beggja. Þetta var stór stund og ég er ekki viss um að
menn hafi gert sér grein fyrir því hversu mikla athygli opnun
Melrakkasetursins vakti meðal fræðimanna um allan heim.
Á þessum tíma var Páll nánast hættur að fá refahræ frá
veiðimönnum af svæðinu og við ákváðum, í samstarfi við
NAVE og sveitarfélög á Vestfjörðum, að fara í átak og hvetja
menn til að senda hræ til náttúrustofunnar. Páll kom vestur að
kryfja og fengum við inni hjá vini okkar, Guðmundi Jakobs-
syni, og bróður hans Ragnari. Þeir áttu gamla vinnslu í Bol-
ungarvík þar sem þeir voru að gera upp báta og fleira. Þar var
líka stór frystigámur þar sem við geymdum refahræin. Þeir
bræður, gjarnan kenndir við Reykjarfjörð, voru hinn besti
félagsskapur meðan við vorum við verkin. Ég minnist þess
þegar Páll og Ásta komu síðast til Súðavíkur, í ágústlok 2011.
Þá biðu okkar tugir refahræja hjá Reykjarfjarðarbræðrum úti
í Bolungarvík og við gengum beint til verks. Þó var tími aflögu
til að njóta útivistar í hinni fögru náttúru Vestfjarða. Páll
og Ásta dvöldust í litlu húsi rétt sunnan við Súðavík og við
fengum okkur gönguferð inn að Valagili í botni Álftafjarðar.
Þessi minning býr í huga mér, ásamt svo mörgum öðrum sem
ég á um vin minn og mentor, Pál Hersteinsson.
Í september sama ár hafði Páll samband við mig til að
athuga hvort ég gæti komið suður til að sjá um verklegan
hluta námskeiðsins Vistfræði spendýra. Ég var reiðubúin en
þegar til kom var Páll kominn á spítala alvarlega veikur. Allir
vita hvernig fór. Stórt skarð var höggvið í vísindasamfélagið,
vinir hans og kollegar misstu einn sinn besta mann, langt
fyrir aldur fram.
Kollegar Páls í Noregi og Svíþjóð minntu mig á þá ákvörðun
að næstu refaráðstefnu skyldi halda á Íslandi. Með dyggri
aðstoð starfsmanna Melrakkaseturs, Vestfjarðastofu og
kollega í refafræðum tókst að halda alþjóðlega ráðstefnu um
líffræði melrakkans á Núpi í Dýrafirði og hófst hún á dánar-
dægri Páls, 13. október 2013. Við hófum ráðstefnuna með
minningardagskrá þar sem lesnar voru kveðjur og frásagnir
vina og samstarfsmanna Páls, hér heima og erlendis. Þetta var
falleg stund og ógleymanleg og ég er ákaflega stolt af því að
hafa átt frumkvæði og þátt í að halda ráðstefnuna hér heima.
Einsetti ég mér að halda nafni hans og ævistarfi á lofti og það
átti ágætlega við að vera starfsmaður við Melrakkasetrið, sem
byggt var á hugmynd hans.