Náttúrufræðingurinn - 2019, Side 59
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
131
Þessi greiN er síðari grein tveggja sem fjalla um sandfok, ryk og áfok á Íslandi.
Myndun ryks á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum og er um
milljónir eða milljónatugi tonna ryks að ræða ár hvert. Tíðni rykveðra á Ís-
landi er yfir 135 á ári að meðaltali og eru þá margir minniháttar „rykatburðir“
ekki taldir með. Rykið mótar öll vistkerfi landsins með því að leggja til áfokið,
sem er móðurefni jarðvegs á Íslandi. Helsta uppspretta ryks var áður uppfok
moldar þegar vistkerfi hrundu en nú eru aðaluppspretturnar nokkrar afmark-
aðar fínkorna sandauðnir. Auk þess berst fok frá öðrum sandauðnum lands-
ins, meðal annars sem endurfok ösku og rykefna sem þangað berast. Fínefni
setjast til í miklum mæli á flæðum framan við jökla, þar sem gætir flóða í
jökulám, við jökulhlaup, þar sem breytingar verða á hæð í jökullónum og með
ströndum við árósa við mikinn framburð jökulvatna. Dyngjusandur, Mælifells-
sandur, Hagavatnsaurar, Mýrdalssandur, Skeiðarársandur og sandar beggja
vegna ósa Markarfljóts og Kúðafljóts eru einar helstu uppsprettur áfoks á
Íslandi. Þaðan berst svifryk um allt land en í mismiklum mæli. Dyngjusandur
er meðal virkustu rykuppsprettna jarðar og ryk þaðan berst langt norður í
heimskautshöfin. Styrkur svifryks mælist oft langt umfram heilsuverndar-
mörk, jafnvel í mikilli fjarlægð frá upprunastað. Áfokið er basískt að samsetn-
ingu, yfirleitt illa kristallað og veðrast hratt í jarðvegi, sem hefur jákvæð áhrif
á frjósemi vistkerfa. Rykið er ennfremur járnríkt og kann að auka frjósemi
hafsvæða umhverfis Ísland. Rykið hefur áhrif á ýmsa loftslagsþætti, hindrar
endurkast sólarljóss og getur aukið bráðnun á yfirborði snævar, sem hvort
tveggja hraðar loftslagsbreytingum á norðurslóðum.