Strandapósturinn - 01.06.1981, Blaðsíða 43
hugarlund þær nauðir og margvíslegu hættur, sem við höfðum
sloppið úr vonum framar, geta auðveldlega skilið hve heitt og
innilega við þökkuðum guði þessa gæfusömu og skjótu breytingu
á högum okkar. Mannlegt hjarta finnur þá fyrst til lukku sinnar
að frelsast frá yfirvofandi ógæfu, þegar því hefur lærst af eigin
reynslu í hve miklar raunir maðurinn getur ratað. Við töldum
okkur nú komna í örugga höfn. Lífi okkar var borgið. Skipin lágu
þama tryggilega að sjá, svo að við vorum vongóðir um að komast
út á þeim aftur við batnandi veðurskilyrði, og — hamingjunni sé
lof — að komast aftur til föðurlandsins eftir ótaldar hættur.“
En skjótt skipast veður á lofti og enn fengu duggarar að reyna,
að við Island eru veður válynd. Landsins forni fjandi hafði ekki
ennþá lokið ætlunarverki sínu í „Lýsuvík“ Hollendinga, hóf upp
hramminn á ný og gerði endanlega út um þennan ójafna leik:
„Þessi gleðiríka von varð þó að engu tveimur dögum síðar, eða
hinn 25. ágúst. Hávaðarok af norðaustri hrakti svo mikinn ís inn
á fjörðinn, að ekki dugði lengur að liggja fyrir akkerunum
þremur, sem við höfðum varpað út. Loks þrýstist ísinn af þvílíku
heljarafli að landi, að við þorðum ekki að bíða lengur með að
setja skipin á land, meðan ennþá gafst færi til þess. Eitt akkerið
drógum við inn, annað létum við liggja. og hið þriðja höfðum við
til taks á vindunni. Þvínæst settum við upp segl, renndum út
kaðli og hleyptum á land. Sjór var þá ennþá sléttur í skjóli við
ísinn, en auk þess gengum við varlega og fumlaust til verks, og af
þessu leiddi, að landtakan varð ekki hörð. Næstu þrjá daga
héldum við til í skipunum. Þá tók sjó að brjóta undan ísnum og
fór mjög hækkandi, en við þetta tóku skipin svo mjög að velta, að
óviðunandi varð, og þótt það væri okkur mjög á móti skapi,
neyddumst við til að flýja skipin hinn 28. ágúst.“
Þarna stóðu þeir í fjörunni í Bolungavík á Hornströndum í
hafísnepjunni tuttugu og fjórir menn, tólf af hvoru skipi, og
hlustuðu á gnauðið í hafísnum meðan strandaðar duggurnar
stigu þunglamalegan dans í fjöruborðinu. Þungt hefur þeim
verið í sinni, en ekki dugði að láta hugfallast:
41