Strandapósturinn - 01.06.1981, Blaðsíða 63
huguðu byggingu átti að vera úr bárujárni og því laust við þá
lekahættu, sem fylgdi hinum hefðbundnu torfþökum. Þetta
þótti mönnum tákn um nýjan tíma, og var ákveðið að reisa
skólahúsið á næsta sumri 1892. Einnig var tekin ákvörðun um
námsgreinar skólans og starfstíma, sem skyldi vera 6 mánuðir á
vetri. En hér voru allar bollaleggingar unnar fyrir gýg, því að hús
þetta var aldrei byggt. Skólajörðin Fell fékkst ekki losuð úr ábúð
og samkomulag náðist ekki um nýjan skólastað, en þar á meðal
hafði Kirkjuból í Tungusveit verið tilnefnt sem skólasetur.
Vildu þá sumir hreppamir, sem áður höfðu stutt að skóla-
stofnun, hætta við allt saman og kröfðust þess, að skólajörðin
yrði seld og peningunum skilað aftur. Þegar sýslunefndin sá í
hvert óefni var komið afgreiddi hún málið með því að selja
jarðárhlutann og leggja andvirðið í sérstakan sjóð, er nefndur var
Fellsskólasjóður og var hann í vörslu sýslunefndarinnar. Þar með
hafði skólamálið stöðvast í þriðja sinn. Það var því ekki hægt að
segja, að byrlega blési fyrir áformum Strandamanna um
menntastofnun í sýslunni.
En nú kom hin alþekkta seigla og þrjóska Strandamannsins
best í ljós. Skólinn skyldi rísa, hvað sem það kostaði, um það voru
allir bændur í Kirkjubólshreppi sammála. Og þegar þeim var
ljóst orðið, að málið var komið í sjálfheldu hjá sýslunefnd, þá
kom þeim saman um að bíða ekki eftir forgöngu annarra í
þessum efnum og hófu því undirbúning að skólabyggingu í
hreppnum á eigin ábyrgð sumarið 1896.
Það var Asgeir Sigurðsson bóndi á Heydalsá, sem hér tók af
skarið með því að gefa lóð undir skólahúsið, en Asgeir hafði áður
talað fyrir sýsluskólamálinu á Kollabúðafundi árið 1891.
Guðmundur Bárðarson tók að sér smíði hússins og flutning á
efni, en það þurfti hann að sækja á áraskipi sínu alla leið til
Borðeyrar. Teikning Guðmundar frá 1891 hafði gert ráð fyrir
torfveggjum á þrjá vegu. Nú þótti sú teikning úrelt orðin og var
því lögð til hliðar, en önnur gerð, mun djarfari, þar sem skilið var
að fullu við hið hefðbundna byggingarefni, grjót og torf, en
timbur og bárujárn notað í þess stað.
61