Strandapósturinn - 01.06.1981, Blaðsíða 25
fjallaheimi, leið mér vel, það gerði blessað veðrið. Áfram var
haldið, stöðugt upp á móti.
Eina á þurfti ég að vaða og fannst mér hún köld, því töluvert
krap var í henni, en ég óð berfættur. Móðir mín hafði látið
nestibita í tösku mína og tók ég hann upp þegar mér fannst vera
nálægt hádegi, en enga klukku hafði ég. Át ég bitann minn og
drakk vatn úr læk með og fannst mér þetta góð hressing.
En ekki var til setunnar boðið. Yfir heiðina skyldi komast áður
en dimmdi, hvað sem það kostaði, og hljóp ég nú annað slagið.
Lokst kom að því, að ég sá hús upp á hæð framundan, og létti
mér stórum við það, því ég vissi að þetta var sæluhúsið og þar var
leiðin hálfnuð. Herti ég enn á ferð minni og kom brátt að húsinu.
Stóðu pósthestarnir undir húsveggnum og átu hey, sem þeim
hafði verið gefið, en var geymt í húsinu handa þeim í vetrar-
ferðum. Innan úr húsinu heyrðist hlátur og mannamál, en úr
hlíðum Tröllakirkju kváðu við skot og rjúpnahópar sáust flögra
til og frá. Þóttist ég vita að einhverjir úr hópnum væru þar við
rjúpnaveiðar. Nú hugsaði ég mér að skjóta póstinum „ref fyrir
rass“ gerði ekkert vart við mig, en flýtti mér framhjá, sem mest ég
mátti. Það var líka notaleg tilfinning að vita af póstlestinni á
eftir sér. Fór nú að halla undan fæti, en degi var líka tekið að
halla. þegar niður af heiðinni kom, þurfti ég að vaða á. alldjúpa
að mér fannst. Nennti ég ekki úr sokkunum, því nú var þreytan
farin að segja til sín. Tók áin mér rúmlega í hné.
í rökkurbyrjun náði ég niður að Fornahvammi. Mér fannst of
snemmt að setjast að, en fór þangað heim til að spyrja til vegar.
Var mér sagt, að til næsta bæjar, sem heitir Sveinatunga, væri
rúmlega klukkutíma gangur. Fannst mér það hæfilegt og ákvað
að halda þangað. Áður en ég fór bað ég að gefa mér að drekka,
því ég var orðinn leiður á klakavatninu á heiðinni. Var strax
komið með mjólk, sem hafði verið blönduð lítið eitt með heitu
vatni, svo hún var aðeins volg. Fann ég að þetta var hinn besti
drykkur fyrir sveittan og göngulúinn mann, og enginn hætta á
að hroll setti að mér, þótt nú væri mikið farið að kólna. Sá ég að
hér vissi fólkið hvað mönnum væri fyrir bestu, enda alvant að
taka á móti ferðamönnum á öllum árstímum.
23