Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Page 71
þorsteinn g. indriðason
Leitin að stofninum
Um stofnsamsetningar og samanburð við eignarfallssamsetningar
1. Inngangur
Fremur lítið hefur verið fjallað um stofninn í stofnsamsetningum í ís lensk -
um málfræðiritum og hvers eðlis hann er.1 Þó má benda á umfjallanir
Eiríks Rögnvaldssonar (1990), Þorsteins G. Indriðasonar (1999), Krist -
ínar Bjarnadóttur (2005) og Gísla Rúnars Harðarsonar (2017) en nánar
verður minnst á þau skrif í kafla 2.3 hér á eftir. Í íslenskum málfræðihand-
bókum má lesa stuttar leiðbeiningar um það hvernig finna megi stofninn
í beygingardæmum (sjá t.d. Höskuld Þráinsson 1995:195, 201 og Guð -
rúnu Kvaran 2005:97–98 og víðar).2 Hvað fallorð varðar ganga leiðbein-
ingarnar í grófum dráttum út á það að þegar stofninn er sterkt nafnorð
hafi hann sama form og þolfall eintölu í þessum orðum, sbr. armur(nf.kk.)
– arm(þf.), mynd(nf.kvk.) – mynd(þf.) og land(nf.hk.) – land(þf.). Í stofn -
samsetningum með sterkum nafnorðum í fyrri lið hefur stofninn sama
form, sbr. armbeygjur, myndlist og landkönnuður. Í stofnsamsetningum
Íslenskt mál 43 (2021), 71–98. © 2021 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Fyrir rúmum 20 árum hóf ég langa vegferð með umfjöllun um fyrri liði í íslensku.
Vegferðin hófst með skoðun á fyrri liðum í eignarfallssamsetningum aðallega (Þorsteinn
G. Indriðason 1999) og eftir það hef ég skoðað fyrri liði í vesturnorrænum málum (2011),
fallbeygða fyrri liði í íslensku og öðrum málum (2014), setningarlega fyrri liði (2017a),
sagnlega fyrri liði (2017b), áhersluforliði (2018a, 2018b) og nú er við hæfi að enda veg-
ferðina á fyrri liðum sem eru stofnar. Ég þakka ritstjórum og tveimur ónafngreindum
ritrýnum fyrir mjög gagnlegar athugasemdir við fyrri gerð sem varð til þess að ég tók efnið
öðrum og skynsamlegri tökum en áður. Enn fremur þakka ég Veturliða Óskarssyni og
Margréti Jónsdóttur fyrir góðar athugasemdir við fyrri gerð og Helga Skúla Kjartanssyni
fyrir að hafa vakið athygli mína á áhugaverðum dæmum og ýmsum undantekningum. Allt
sem missagt kann að vera skrifast á minn reikning.
2 Hér er talað um stofna eins og venja er í þessu samhengi, sbr. stofnsamsetningar, en
í mörgum dæmum mætti eins tala um rætur og rótarsamsetningar (e. root compounds) eins
og gert er víða í erlendum skrifum (sbr. t.d. De Belder 2017). Svo virðist sem hugtakið
stofn í íslensku sé notað sem einhvers konar yfirhugtak yfir það sem kemur fram í fyrri
hluta stofnsamsetninga, þ.e. það sem á bæði við rætur (hús-bátur) og stofna (rætur og
aðskeyti), sbr. jökul-leir o.s.frv.