Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Qupperneq 100
Fyrri liðurinn í samsetningum er oftast nafnorð, þ.e. heiti á hlut eða
fyrirbæri. Dæmi eru að vísu um að sá liður sé fornafn, svo sem í orðum
eins og einskisnýtur, hvorugkyn, eða töluorð, t.d. einsdæmi, fjögramaki — og
auðvitað þegar töluorð eru fyrri hluti samsetts fyrri liðar í tvísamsettum
orðum, t.d. tveggjamannafar, þriggjakornabrauð, en þar er samsetti liður-
inn nafnorð.
Fyrri liðurinn getur einnig verið lýsingarorð og koma þar strax upp í
hugann orð mynduð með sjúkur og fátækur í eignarfalli fleirtölu sterkrar
beygingar. Leit í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans (RMS) leiðir í ljós
rúmlega 290 flettiorð með sjúkra- í fyrri lið samsetningar. Af þeim eru
115–120 orð (um 40%) samsetningar með einföldum fyrri lið á borð við
sjúkrarúm og tæplega 180 orð (um 60%) eru fleirsamsett, þar sem eignar-
fallsliðurinn er slíkt samsett nafnorð, t.d. sjúkrarúmanotkun. Sambærileg
leit að fátækra- leiðir í ljós rúmlega 150 samsetningar, þar af 115 (um 77%)
með fátækra- sem einfaldan fyrri lið. Fremur lítið virðist vera um aðrar
samsetningar af þessum toga þó að orð eins og blindraletur og vitlausra -
spít ali minni fljótt á sig.
Lýsingarorð eru ákvæðisorð sem þrengja eða afmarka merkingu nafn-
orðs eða annars sambærilegs liðar.2 Sameiginlegt samsetningum með
lýsingarorði í eignarfalli er að formlega séð virðist slíkan höfuðlið vanta.
Lýsingarorðshluti samsetninga á borð við sjúkrarúm, fátækrahverfi, blindra -
letur o.s.frv. lýsir nefnilega ekki nafnorðinu sem myndar seinni hluta
samsetningarinnar, rúm, hverfi, letur, heldur hefur lýsingarorðið fengið
nafnorðsígildi og ber nú í sér bæði eigin merkingu og þá sem ætla má að
höfuðliður hefði haft, sem í langflestum tilfellum væri ‘maður’, ‘persóna’
eða annað sambærilegt. Samsetningar á borð við þær sem hér voru nefnd-
ar, án höfuðliðar, eru sárafágætar í fornu máli. Þar er nær alltaf höfuðliður
með, í flestum tilfellum ef.ft. manna, t.d. dauðramannaumbúnaður, fátækra -
mannaspítali, heilagramannamessa, lendramanna forráð. Sögulega séð má
segja að þessi höfuðliður hafi fallið brott og endurtúlkun átt sér stað frá
eldri málstigum til nútímans og lýsingarorðið tekið við hlutverki nafn-
orðsins. Við það hafi setningarliður orðið að samsetningu.
Í þessari grein verður athyglinni beint sérstaklega að þessum undir-
flokki eignarfallssamsetninga, þ.e. samsetningum með eignarfalli fleirtölu
Veturliði Óskarsson og Þorsteinn G. Indriðason100
2 Sbr. skilgreiningu í Íslenskri orðabók (2002:941) og Íðorðabanka Stofnunar Árna
Magnússonar í íslenskum fræðum (<https://idordabanki.arnastofnun.is/leit/l%C3%B
Dsingaror%C3%B0/ordabok/MALFR>). Lýsingarorð geta staðið ein og gegnt hlutverki
sagnfyllingar, verið ávarpsliður o.s.frv., en þau eru samt sem áður „lýsandi“ fyrir fyrirbæri,
hlut, manneskju o.s.frv., og vísa því til einhvers konar „nafns“.