Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Page 107
Og slík tengsl eru klárlega fyrir hendi í þeim dæmum sem áður voru
nefnd, sbr. sjúkraskýli (skýli sjúkra), holdsveikranýlenda (nýlenda holdsveikra),
fátækrastyrkur (styrkur fátækra) og blindraletur (letur blindra). Það er athyglis -
vert að lýsingarorðið er í flestum tilfellum í fleirtölu og það verður skoðað
nánar síðar.4
2.5 Dregið saman
Í þessum kafla hefur verið fjallað um ýmsar tegundir samsettra orða í
íslensku með megináherslu á umfjöllun um eignarfallssamsetningar. Sýnt
var fram á að sumar eignarfallssamsetningar með nafnorði í fyrri lið hafa
sterk merkingarleg tengsl við formgerðir með höfuðorði og eignarfalls-
einkunn og að það gæti skýrt uppruna eignarfallsins í fyrri lið. Hins vegar
eru til eignarfallssamsetningar með nafnorði í fyrri lið þar sem þessi merk -
ingarlegu tengsl fyrri og seinni liðar eru ekki fyrir hendi. Öðru máli gegnir
um eignarfallssamsetningar með sterkum lýsingarorðum í fleirtölu í fyrri
lið. Allar slíkar samsetningar virðast hafa merkingarleg og formleg tengsl
við höfuðorð og eignarfallseinkunn og að því leyti er orðmyndunin öðru-
vísi en myndun sumra eignarfallssamsetninga með nafnorði í fyrri lið.
3. Efniviður rannsóknarinnar
Fyrir þessa athugun á eignarfallssamsetningum með sterkbeygðum lýs -
ingarorðum í fyrri lið var sett saman skrá lýsingarorða sem síðan var notuð
við leit í rafrænum textum og söfnum. Var þar einkum stuðst við dæma -
lista í málfræðibók Valtýs Guðmundssonar (1922:91–96)5 og bætt við
dæmum úr öðrum og nýrri ritum. Aukið var við skrána úr málfræði -
bókum yfir norrænt mál að fornu. Alls eru í skránni rétt um 500 mismun-
Eignarfallssamsetningar með sterkum lýsingarorðum í fyrri lið 107
4 Benda má á að lýsingarorð eins og sjúkur og veikur virðast ekki oft koma fyrir sem
fyrri liðir í stofnsamsetningum heldur frekar í viðskeyttum orðum eins og sjúklegur og sjúk-
lingur, eða þá í orðum eins og veikleiki, veiklundaður og veikgeðja þar sem seinni liðirnir geta
ekki staðið sjálfstæðir eða eru á mörkum þess að vera sjálfstæðir (sjá t.d. Þorstein G.
Indriðason 2016:2, nmgr. 6 um ýmis heiti á þannig liðum). Undantekningar má þó finna
eins og í samsetta orðinu veikbyggður. Aðeins öðru máli gegnir um lo. dauður. Þó að fyrri
liðurinn sé áberandi sem áhersluforliður, sbr. dauðuppgefinn, dauðleiður og dauðlanga, þá
eru til stofnsamsetningar eins og dauðrota, dauðheimur og dauðfæddur en þær virðast ekki
margar.
5 Sum orð sem þar eru rakin eru yfirleitt ekki talin til lýsingarorða í orðabókum og
handbókum heldur er litið á þau sem lýsingarhætti þátíðar af sögnum, t.d. duninn, dvalinn,
framinn, haminn, krufinn, lapinn, sendur, spúinn, þulinn.