Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Page 114
Orðin eru of fá til þess að réttmætt sé að draga miklar ályktanir af þeim
en athyglisvert er þó að þarna virðist mega greina tilhneigingu til sömu
flokkunar og er öllu augljósari í nútímamáli (sjá (14) hér á eftir). Hér ber
þó að hafa í huga að einungis tvö orð í (6) hafa lýsingarorðið án eftirfar-
andi nafnorðs í eignarfalli, hin orðin hafa, sem fyrr segir, -manna-, -daga-
eða -laga- sem seinni hluta eignarfallsliðarins og eru nær því að vera eignar -
fallseinkunnir á setningarsviði en samsett orð.
Fyrri liðirnir í (9) — þ.e. dæmin sem rak á fjörur okkar í ONP en eru
samt ekki skráð sem flettur þar — eru merkingarlega séð dreifðari en upp-
flettiorðin í (6), að því er varðar lýsingarorðshluta þeirra. Þemun eru þó
svipuð:
(12) a. Lífskostir og eiginleikar: aldrœnn, fár, dauðr, dugandi, dyggr, dýrr,
fátœkr, forn, góðr, heimskr, hygginn, illr, ranglátr, rangr, ríkr, tíg-
inn, vándr, vesall, ǫflugr
b. Trú: heiðinn, heilagr, kristinn, trúlyndr
c. Uppruni: írskr, þýðerskr
Ekki er ljós neinn sérstakur munur á fyrri liðunum í (6) og (9) og það að
dæmin í (9) skuli ekki skráð sem flettur í ONP kann að endurspegla
meðvitaða ritstjórnarreglu eða máltilfinningu þeirra sem í tímans rás hafa
staðið að orðtöku, en kann auðvitað einnig að vera hrein tilviljun.
Í þessum kafla hefur verið fjallað um dæmi úr eldra máli og þau greind.
Í næsta kafla verða tekin fyrir dæmi úr yngra máli og þau borin saman við
eldra málið til þess að komast að hugsanlegum breytingum sem orðið hafa.
4.3 Yngra mál
Niðurstöður leitar í yngra máli, þ.e. eftir 1540, með hliðsjón af ofangreind-
um orðalista, reyndust nokkuð aðrar og meiri en í eldra máli. Að því er
dæmafjöldann varðar kann það að hluta til að skýrast af því að leitar bær
gögn úr fornmáli (varðveittir textar sem og gagnagrunnar byggðir á þeim)
eru umfangsminni en úr nútímamáli. En nánari samanburður leiðir í ljós
annan og áhugaverðari mun, og verður gerð grein fyrir honum hér að neðan.
Leitað var í RMS og komu þar í ljós rúmlega 540 orð með lýsingarorði
í eignarfalli fleirtölu sterkrar beygingar í fyrri lið. Þetta safn var talið nógu
umfangsmikið til þess að ekki væri þörf á að bæta við dæmum úr MÍM.13
Veturliði Óskarsson og Þorsteinn G. Indriðason114
13 Lausleg athugun sýnir eigi að síður að í MÍM er að finna orð sem ekki koma fyrir
í RMS, einkum með lýsingarorðunum sjúkur, fátækur og blindur í fyrri lið.