Saga - 2020, Page 20
En er víst að eftir 50 eða 100 ár muni fólk hafa meiri áhuga á
áhrifum veirufaraldursins en ýmsu öðru á okkar tímum, til dæmis
því hvernig tækniþróun, netvæðing og snjallsímar eru smátt og
smátt að umbreyta lífi okkar? Eða því hvernig hamfarahlýnun sann-
færir æ fleiri um nauðsyn þess „að endurhugsa heiminn“ svo notuð
séu orð Andra Snæs Magnasonar?3 Verður COVID-19 ef til vill ein-
ungis neðanmálsgrein í mannkynssögunni?
Við vitum auðvitað ekki hvernig seinni tíma kynslóðir munu
meta samtíma okkar og hvað þær munu skilgreina sem sögulega
tíma, hvaða mælikvarða þær munu leggja á atburði. En stundum
gerast atburðir sem við erum strax sannfærð um að muni teljast
sögulegir þegar fram líða stundir. Það á við um veirufaraldurinn
sem nú gengur yfir heimsbyggðina. Og var ekki svipað uppi á ten-
ingnum í fjármálakreppunni og bankahruninu fyrir rúmum áratug,
þótt ólíku sé saman að jafna? „Fall bankanna á Íslandi haustið 2008
telst til afdrifaríkustu atburða í sögu lýðveldisins,“ skrifaði sagn -
fræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson einungis örfáum mánuðum
eftir að bankarnir féllu.4
Fleiri atburði úr sögu síðari áratuga mætti nefna, til að mynda
hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Það var ein-
stakur atburður sem hafði sterk áhrif á mjög marga. Ég man enn
hvernig mér leið að kvöldi dags, gagntekinn af þeirri hugsun að nú
færu í hönd átök og umbrot, að 11. september markaði upphaf sögu-
legra tíma. Og vissulega leiddu hryðjuverkaárásirnar af sér átök og
ófrið eins og allir vita. En var þetta í raun „dagurinn sem breytti heim-
inum“ eins og oft var sagt þá? Varla. Nú, tæpum tveimur áratugum
síðar, virka þessir atburðir í september 2001 undarlega fjarlægir og
ekki eins sögulegir og manni fannst þá að þeir yrðu taldir síðar.
Hryðjuverkaárásir, fjármálakreppa, heimsfaraldur. Sögulegir
tímar eldast misvel og viðhorf okkar til þessara viðburða munu
örugglega breytast með tímanum.
Við upplifum líka atburði á ólíkan hátt. Sjálfur hef ég aldrei
skynj að sterkar að lifa sögulega tíma, heimssöguleg tímamót, en
þegar kommúnisminn hrundi í Austur-Evrópu, Sovétríkin leystust
upp og kalda stríðinu lauk. Þá var ég nýfluttur heim eftir nokkurra
álitamál18
3 Andri Snær Magnason, Um tímann og vatnið (Reykjavík: Mál og menning, 2019),
299.
4 Guðni Th. Jóhannesson, Hrunið: Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (Reykja -
vík: JPV, 2009), 7.