Saga - 2020, Page 26
með frasanum „frekari rannsóknir skortir á þessu sviði“ og það á
svo sannarlega sjaldnast við um sögulega tíma. Að vísu búa íslenskir
sagnfræðingar við þann munað að oft er nægilegt að bæta við vinkl-
inum „á Íslandi“ til að fá nýtt sjónarhorn á sögulega tíma. Það eru
kannski fá málefni í íslenskri sögu sem hafa verið rannsökuð í þaula,
hvað þá að þau státi af mörgum bandarískum hasarmyndum eða of
nákvæmum Wikipedia-greinum.
Önnur ástæða, en ekki ótengd, fyrir því að tilhugsunin um að
svara þessari ágætu spurningu um eðli sögulegra tíma fyllti mig
ósegjanlegum leiða í allt sumar er hin augljósa tenging álitamálsins
við samtíma okkar sem ber jú öll merki þess að vera afar sögulegur
tími. Mér finnst nútíminn að mörgu leyti óþolandi og aftur get ég
ekki trúað því að ég sé eini sagnfræðingurinn á þeirri skoðun. Til
nútímans hef ég fátt að sækja. Að mínu mati er það hámark sagn -
fræðilegrar ánægju að komast í samband við fortíð sem ég vissi ekki
að hefði verið til eða áleit í það minnsta glataða og handan seilingar.
Það að takast með krókaleiðum að raða saman takmörkuðum heim-
ildum og skoða þær í ljósi flókinna fræðikenninga til að fá brota-
kennda mynd af einhverju afmörkuðu sviði tiltekins staðar og tíma,
það er eitthvað sem vert er að sinna.
Samtími okkar árið 2020 býður hins vegar upp á offlæði upp -
lýsinga. Það þarf til dæmis ekki lengur að skrifa grein og fá birta í
dagblaði til að láta skoðanir sínar á málefnum líðandi stundar í ljós.
Það er nóg að velja úr sjö ólíkum andlitssvipum á Facebook-síðu
fréttaveitunnar sem deilir tilteknum tíðindum. Vekur þessi ákvörð -
un ríkisstjórnarinnar hjá þér hlátur, grátur, undrun, reiði, kærleiks-
ríka umhyggju eða löngun til að rétta upp þumalinn til samþykkis?
Allir hafa stöðug tækifæri til að láta í ljós skoðun sína á hverju sem
er. Fólk ræðir ekki aðeins atburði, menn og málefni við þá vini, fjöl-
skyldumeðlimi og vinnufélaga sem það umgengst dagsdaglega
heldur alla sem hafa fallið í þennan hóp um lífsleiðina. Í félagslegu
mengi einnar fullorðinnar manneskju á samfélagsmiðli eru allt frá
gömlum grunnskólafélögum upp í fólk sem tók þátt í helgarráð -
stefnu á Hótel Sögu árið 2012, líklega nokkur hundruð manns að
minnsta kosti. Auðvitað er allt þetta fólk ekki í stöðugum samræð -
um um málefni á borð við nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar eða út -
breiðslu heimilisofbeldis í samfélaginu en glymjandinn getur engu
að síður orðið ansi mikill. Eins og kliður í stórri flugstöð þar sem
ómögulegt er að heyra orðaskil, óralangt frá fagurri kyrrð liðinna
alda.
álitamál24