Saga - 2020, Side 34
vinda hennar verði annað og meira en vélræn endurtekning þess
sem á undan fór — saga án sögulegra tíma. Af öllu þessu flýtur þá
að örlög heimspeki Hegels og þar með einnig viðfangs hennar,
heimsins og sögunnar, eru enn óráðin — og að þessi örlög eru í senn
spurningin um túlkun og viðtökur heimspeki Hegels. Enn getur
komið í ljós að hún hafi verið innantóm vitleysa en hún gæti líka
verið sannleikurinn sjálfur. Þannig er sjálf spurningin um sögulega
framvindu innrituð í heimspeki Hegels og með fylgir spurningin
um það hvort og þá hvernig hið sögulega eigi sér viðreisnar von —
hvort tímarnir geti (ennþá, úr þessu) orðið sögulegir.
Í greinum sínum um söguspeki veltir Walter Benjamin fyrir sér
spurningunni um gerandann í sögunni og þar með um möguleik -
ann á sögulegum tímum. Að hætti sögulegrar efnishyggju í anda
Marx, þekktasta arftaka Hegels, lítur Benjamin á söguna sem nokk-
urn veginn samfelldar hörmungar allrar alþýðu manna þar sem æ
fleiri falla hungruð og snauð í valinn og eru fótum troðin. Jafn framt
setur hann fram máttuga gagnrýni á framfarahyggju sem telur að
allt sé í rauninni alltaf, og eiginlega samkvæmt skilgreiningu, á réttri
leið. Hér verður aftur fyrir okkur túlkunarvandinn sem Hegel skildi
eftir sig og í anda þeirrar túlkunar sem hér hefur verið haldið fram
leitast Benjamin við að móta hugmynd um geranda sem nær þegar
vel tekst til að rísa upp á móti hinu innihaldslausa framfarahugtaki
og koma einhverju til leiðar „í baráttunni fyrir hina kúguðu fortíð“.7
Markmiðið er umbylting og uppreisn æru hinna kúguðu en slík
viðleitni býr við þröngan kost með því að byltingin getur hvergi átt
sér stað nema „á leikvangi þar sem ráðastéttin stjórnar og skipar
fyrir“.8 Við slíkar aðstæður getur sagan, ef ekkert er að gert, ekki
orðið annað en innantóm endurtekning, meira af því sem fyrir er, og
hvers kyns gagnrýni er hjáróma og máttlítil. En það er einmitt í
þessum litla eða veika mætti sem Benjamin virðist finna bjargráð
sitt, sér í lagi ef hinum sögulega geranda tekst að tengjast sögunni
þannig að honum lánist, þegar tækifærið gefst, að bregða á loft
minningunni um horfna atburði og afreksverk hinna undir okuðu.
Þannig getur orðið rof á hinni sléttu og felldu framvindu og vonin
lifnar aftur — vonin um endurlausn. Benjamin skrifar:
álitamál32
7 Walter Benjamin, „Um söguhugtakið (Greinar um söguspeki)“, Guðsteinn
Bjarnason þýddi, Hugur 17 (2005): 27–36, hér 35 (XVII. grein).
8 Sama heimild, 33 (XIV. grein).