Saga - 2020, Page 78
rækt með fólksfækkun og aukinni fátækt í sumum héruðum.53 Þetta
þriðja vaxtarskeið var mesti blómatíminn í sögu heimagrafreitanna
enda voru þeir þá orðnir gamalgróið fyrirbæri og greinilega eftir-
sóknarverðir að margra mati.
Blómatímabilin þrjú í sögu heimagrafreitanna virðast sem sé hald-
ast í hendur við sóknarskeið í landbúnaði og eflingu bændamenn-
ingar frá því fyrir aldamót til 1918, þau tímamót að Framsóknar -
flokkurinn tók við stjórnartaumunum á þriðja áratugnum og loks
vaxtarskeiðið í landbúnaðinum frá því um 1940. Hér er því litið svo
á að þeir bændur sem þátt tóku í átökunum um útförina hafi sótt
kraft í tiltölulega hagstæða félags- og efnahagsstöðu atvinnugreinar
sinnar á fjölgunarskeiðunum þremur. Því virðist mega líta svo á að
heimagrafreitir og heimagröftur séu hluti af víðtækari félags- og
menningarlegri vakningu meðal bænda. Hafa bændur bæði á gam-
algrónum ættarjörðum og nýliðar í röðum sjálfseignarbænda meðal
annars viljað sýna tryggð sína við bújörðina með því að óska þar
hinstu hvílu fyrir sig og sína. Skýra þessar aðstæður um margt hve
eftirsótt það varð að stofna grafreiti sem og hvers vegna hér varð
um alþýðlegri hreyfingu að ræða en erlendis.
Hér er þó að fleiru að hyggja. Heimagrafreitirnir ruddu sér til
rúms á breytingatíma í kirkjumálum sem lengi eimdi eftir af. Frá
því á sextándu öld var ríkisátrúnaður við lýði í Danaveldi og um
miðja átjándu öld voru sett nákvæm fyrirmæli um hvernig almenn-
ingur hér skyldi iðka trú sína heima fyrir og við kirkju.54 Með
stjórnarskránni 1874 var aftur á móti innleitt trúfrelsi og komið á
þjóðkirkjuskipan. Jókst þar með trúarlegt sjálfræði fólks nokkuð og
örla tók á lýðræðisvæðingu í kirkjunni þótt fastheldni gætti lengi
hjá bæði andlegum og veraldlegum forystumönnum þjóðarinnar
andspænis þeim nýjungum.55 Þjóðkirkjan gekk einnig í gegnum
niðurskurðartíma fram um 1907 er prestaköllum var fækkað. Fjöldi
sókna í einstökum prestaköllum óx og samband presta og safnaðar-
búa rýrnaði meðal annars við að prestar urðu ríkisstarfsmenn í
hjalti hugason76
53 Árni Daníel Júlíusson, Landbúnaðarsaga Íslands 2, 311–312.
54 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, Kristni á Íslandi III, ritstj.
Hjalti Hugason (Reykjavík: Alþingi, 2000), 167–178, 180–183.
55 Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar,“ í Til móts við nútí-
mann, Kristni á Íslandi IV, ritstj. Hjalti Hugason (Reykjavík: Alþingi, 2000), 54–
59, 92–95; Hjalti Hugason, „„… úti á þekju þjóðlífsins“: Samband þjóðkirkju
og þjóðar við upphaf 20. aldar,“ Glíman sérrit 2 (2010): 98 –99.