Saga - 2020, Blaðsíða 101
kom til meðferðar við dómstóla árið 1808, sex árum eftir að fyrr-
greind Steinunn Árnadóttir klagaði illa meðferð manns síns á sér
fyrir stiftamtmanni, og gefur innsýn í hvernig mál hennar gæti hafa
þróast hefði hún fylgt því fast eftir. Tvö mál frá miðri nítjándu öld
(1852 og 1863) eru dæmi um ólík og misalvarleg ofbeldismál sem
bæði voru álitin réttmæt tilefni til réttarrannsóknar. Fjórða málið, frá
byrjun tuttugustu aldar, varðar langvarandi heimilisofbeldi. Í gögn-
unum sem þessi rannsókn styðst við kemur hugtakið heimilis-
of beldi ekki fyrir en það birtist fyrst á prenti samhliða opinberri um -
ræðu um efnið í tengslum við stofnun Kvennaathvarfsins undir lok
tuttugustu aldar.10 Þegar opnað var fyrir umræðuna um heimilis-
ofbeldi var fyrst og fremst verið að vísa til líkamlegs ofbeldis. Í dag
er lagður víðtækari skilningur í hugtakið og tekur það nú einnig til
and legs, kynferðislegs og fjárhagslegs ofbeldis og hótana.11 Með hlið -
sjón af mögulegum hirtingarrétti eiginmanna fyrr á tíð er í greininni
fjallað um heimilisofbeldi í hinni þrengstu merkingu orðsins, það er
líkamlegt ofbeldi sem konur verða fyrir af hálfu maka. Í greininni
eru hugtökin heimilisofbeldi, ofbeldi í hjónabandi og ofbeldi gegn
maka notuð jöfnum höndum.
Um löglegar og ólöglegar líkamsmeiðingar
Á því tímabili sem rannsóknin nær yfir var af hálfu ríkisvaldsins
beitt líkamsmeiðingum og líflátshegningum sem refsiúrræði við
ýmsum brotum. Í lagasafninu Jónsbók, sem lögtekin var árið 1281
og gilti á Íslandi um aldir, eru ákvæði um líkamsmeiðingar í hegn-
ingarskyni12 og einnig í Stóradómi frá árinu 156413 og refsirétti
Dönsku og Norsku laga Kristjáns V. Danakonungs, frá síðari hluta
sautjándu aldar, sem síðar áttu eftir að leysa Jónsbók af hólmi.14
minn réttur … 99
10 Sbr. „Fundir á vegum Samtaka um kvennaathvarf,“ Tíminn 16. september 1989,
26; „Bak við byrgða glugga. Hvað er heimilisofbeldi?,“ Morgunblaðið 19. sept-
ember 1989, 18.
11 Lbs. – Hbs. (Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn), Arnfríður Gígja Arn -
gríms dóttir, „Heimilisofbeldi.“ MA-ritgerð í lögfræði við Háskóla Íslands 2009,
9–11.
12 Jónsbók, 102–103, 110, 119, 239–240.
13 Lovsamling for Island I, 84–89.
14 Jónsbók, 109–110, 114–116; Kong Christians þess fimta Norsku løg a islensku utløgd
(Hrappsey: [án útg.], 1779), 6. bók. 7. kafli, gr. 1–19; Páll Sigurðsson, Brot úr
réttarsögu (Reykjavík: Hlaðbúð, 1971), 164, 186–188.